139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

nýr Icesave-samningur.

[15:46]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þá ósk sem fram hefur komið um að boðað verði til funda í bæði hv. fjárlaganefnd og hv. utanríkismálanefnd. Þrátt fyrir að hæstv. utanríkisráðherra kalli fram í og segi: Það eru ekki komin nein drög, les maður um það í blöðum að drög að samningi hafi verið kynnt í þingflokkum stjórnarandstöðuflokkanna (Gripið fram í.) en það er ekki alveg rétt. Þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra hafi sagt að væntanlega komi 7. desember á morgun get ég fullyrt við hana að hann kemur á morgun og bréfið til ESA var með skilafresti til 7. desember. Það er alveg borðleggjandi ósk frá okkur að fá að sjá bréfið í hv. utanríkismálanefnd ef það á að senda það. Ef það á ekki að senda það væri líka gott að fá upplýsingar um það.