139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

nýr Icesave-samningur.

[15:47]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er unnið núna að því að reyna að ná niðurstöðu í Icesave-málinu og kanna hvort grundvöllur geti verið til að ljúka samkomulagi. Ég held að það sé mikilvægt að við reynum að sameinast um það hér að gefa þeim samningsumleitunum tækifæri. Það háttar þannig til að svarfrestur til Eftirlitsstofnunar EFTA rennur út á morgun. Vegna þess að samningsumleitanir eru í gangi hef ég talað við forseta Eftirlitsstofnunarinnar og tjáð honum að ekki verði sent svar á morgun, en ég verð í sambandi við hann aftur á miðvikudag og við munum fara yfir málin þá. Áður en nokkur svör verða send, komi til þess að svör verði send, verða þau auðvitað kynnt og rædd í utanríkismálanefnd eins og alltaf hefur staðið til.