139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[16:20]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil mjög gjarnan kannast við Suðurnesin og Hornafjörð sem er hluti af mínu kjördæmi. En ég er komin upp til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um þær breytingar sem er verið að gera á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Ég er 1. flutningsmaður að frumvarpi sem varðar breytingu á þeim lögum þar sem ég legg til að 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna verði felldur út. Hann er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Að sýnt sé fram á með gögnum að varið verði a.m.k. 5 millj. kr. til rannsókna og þróunar á 12 mánaða tímabili.“

Ein af þeim athugasemdum sem ég fékk við frumvarpið, eftir að það var samþykkt sem lög frá Alþingi, frá þeim sem starfa við stuðning við nýsköpunarfyrirtæki var sú að þetta kæmi engan veginn til móts við litlu nýsköpunarfyrirtækin þegar þau væru að hefja rekstur og þyrftu einna helst á stuðningi að halda. Þegar ég renni hins vegar í gegnum þær breytingar sem lagðar eru til hér virðist fyrst og fremst horft til þess að hækka upphæðina gagnvart meðalstórum nýsköpunarfyrirtækjum en ekki að koma til móts við litlu fyrirtækin sem þurfa einna helst á stuðningi að halda.

Kæmi til greina að bæta við þessu ákvæði við meðferð (Forseti hringir.) efnahags- og skattanefndar?