139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[16:27]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það verður náttúrlega ekki bæði sleppt og haldið. Ef menn vilja reyna að aðstoða fyrirtæki í erfiðleikum, sem eru það unnvörpum, og þar á meðal sum vegna svona mála að þau hafa lent í því að skulda opinber gjöld, það er liður í því að þau komist í gegnum sína erfiðleika og það er liður í því að þau komi sínum málum í skil, þá hefur þessi aðferð ótvíræða kosti. En að sjálfsögðu má alltaf færa rök af því tagi sem hv. þingmaður fer hér með, samanburðar- og samkeppnisrök eða hvað það nú er, og þá stendur eftir spurningin: Er verið að bjarga meiri hagsmunum en minni? Er þetta skynsamleg aðgerð við okkar aðstæður sem eru óvenjulegar? Það er alveg rétt, þetta er óvenjuleg aðgerð. Við venjulegar aðstæður væru menn ekki að grípa til þessa en það hefur komið í ljós, samanber það sem ég fór yfir í framsöguræðu minni, að þetta úrræði hefur nýst fjöldamörgum og mjög margir aðilar hafa borið sig eftir þessu. Það hefur auðveldað þeim að koma sínum málum í skil (Forseti hringir.) og það eykur væntanlega líkurnar á því að ríkið fái þessa peninga þótt aðeins síðar verði.