139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[16:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fór yfir það að við teljum að þær umsóknir sem liggja fyrir eigi að geta staðið eins og þær eru þó að þessar breytingar séu gerðar á lögunum, enda eru þær að sjálfsögðu til rýmkunar hvað varðar fjárhæðarmörkin og þann þátt. Ég fór rækilega yfir það hvers vegna við verðum að reyna að gera þessar breytingar. Það er einfaldlega vegna þess að annars er málið strand, annars getum við ekki hafið framkvæmd á þessum stuðningi vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Við skulum bara orða það hreint út: Það er verið að reyna að bjarga í horn með því að fara í þessar breytingar núna og vonandi tekst okkur að gera það fljótt og vel þannig að framkvæmdin tefjist ekki um heilt ár. Þá er það von okkar að umsóknirnar standi og haldi algjörlega gildi sínu og hægt verði að vinna úr þeim fljótt og vel að því tilskyldu vissulega að við fáum ESA til að samþykkja þessa nýju útfærslu á stuðningnum.

Hitt varðandi hlutabréfin, ég skal ræða það í seinna svari við hv. þingmann.