139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[16:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svarið er já, bæði þessi faglegu og fjárhagslegu samskipti verða endurskoðuð 2014, þar á meðal hvernig 1,2% af útsvarsstofni duga til að mæta öllum þörfum vegna útgjalda málaflokksins. Þannig er um þetta búið að útsvarsprósentan er stillt af með mati á því hvað sé líklegt að vera fullnægjandi og meira en fullnægjandi til lengri tíma litið. Ef horft er til baka og tekið meðaltal af útgjöldum til málaflokksins nokkur undanfarin ár eða fyrir hrun, skulum við segja, þá hefðu að meðaltali 1,07%–1,09% dugað fyrir þeim útgjöldum þannig að hér er borð fyrir báru. Útsvarsstofninn er slakur um þessar mundir og þess vegna vantar nokkuð upp á að hann skili fullnægjandi tekjum. Það er bætt með beinum framlögum úr ríkissjóði á þessu tímabili eftir því sem þarf. Sveitarfélögum er því algerlega tryggð yfirfærsla á fjárveitingum í samræmi við raunkostnað vegna málaflokksins eins og hann stendur í dag, plús þær einskiptisgreiðslur sem fylgja málaflokknum í beinum framlögum frá ríkinu og (Forseti hringir.) breytingarkostnaður og ýmislegt annað næstu þrjú árin.