139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[16:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er örugglega hægt að verða nefndinni innan handar um að draga það í hús. Starfshópar hafa verið starfandi og eru starfandi varðandi umbreytingu í orkumálum. Þetta tengist að sjálfsögðu líka þeim gagngeru breytingum í skattalegum þáttum sem snúa að umferðinni og eru hér til umfjöllunar m.a. á þingi í öðrum frumvörpum. Í grunninn er það þannig að nánast er um niðurfellingu að ræða þegar fluttir eru inn nýir bílar sem nota umhverfisvæna orkugjafa, hvort sem það er rafmagn, vetni eða metan. Þá er þetta liður í því að koma til móts við þarfir þeirra sem eiga bíla og eiga þann kost, ef þeir svo kjósa, að breyta þeim í þessa átt. Það er sá angi málsins sem er undir í þessu tilviki. Svo bíður okkar það stóra verkefni að útfæra skattaleg atriði sem snúa að umferðinni þegar slíkir orkugjafar verða í vaxandi mæli í notkun og stærri og stærri hluti umferðarinnar ekur eftir vegunum og nýtir sér samgöngukerfið án þess að greiða bensíngjald eða olíugjald eða þungaskatt. Það er seinni tíma mál. Fyrst viljum við koma þessari þróun af stað og stuðla að því að hún verði í rétta átt.

Að lokum vil ég nefna varðandi skattalega meðferð gengishagnaðar. Hér er þó alla vega hlustað þó að seint sé. Ég hef sagt það áður að okkur er það ekkert kappsmál að viðhalda einhverju sem í ljós kemur að má betur fara í skattalegu tilliti. Ef það eru tæknileg atriði eða sanngirnisútfærsla af einhverju tagi erum við alltaf tilbúin til að skoða það eins og þessi dæmi og nokkur önnur hér í frumvarpinu sýna að því tilskildu auðvitað að þar sé þá ekki um að ræða meiri háttar tekjutap fyrir ríkið, því að það er erfitt að taka á ríkissjóð eins og afkomu hans er háttað um þessar mundir. En ef það eru sanngirnisútfærslur, tæknilegar breytingar, til að einfalda skattframkvæmdina, einfalda framtöl eða bókhaldsleg atriði, er að sjálfsögðu rétt og skylt að skoða það á hverjum tíma.