139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[17:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir jákvæða ræðu og ágæta yfirferð. Hann talaði um að nú gætum við farið að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum. Ég nefndi áðan að 60 þús. manns, sennilega heimili, báðir aðilar kaupa ekki hlutabréf, töpuðu um 80 milljörðum á hlutabréfaeign sem hreinlega hvarf. Þetta var sparifé margra heimila, 60 þús. er um helmingur heimila í landinu. Nánast allir þekkja einhvern sem tapaði á hlutabréfum. Með þá þekkingu í farteskinu: Hvað þarf að gera til að einhver verði svo vitlaus að kaupa hlutabréf núna þar sem mjög litlu hefur verið breytt? Ég er ekki sammála að miklu hafi verið breytt. Krosseignarhald er enn þá leyft. Raðeignarhald er enn þá leyft. Þótt það sé bannað að lána beint til eigenda, á meðan menn ekki vita eigendastrúktúrinn alveg upp úr, þá geta menn lánað forföður fyrirtækisins, einhverjum eiganda eiganda eigandans og sá getur svo lánað það aftur til baka í hring. Það er því ekki búið að laga þær veilur sem voru.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvernig ætlar hann að byggja upp traust aftur þegar ekki er búið að laga meira en þetta?

Auk þess hefur fjármagnstekjuskatturinn verið hækkaður úr 10% í 15%, 18%, 20%. Hvar endar þetta? spyr sá sem ætlar að leggja fyrir eða fjárfesta. Tekjuskattur fyrirtækja hefur hækkað upp í 15%, 18%, 20%. Hvar endar þetta? spyr sá sem ætlar að fjárfesta í hlutabréfum.

Varðandi metan vil ég taka undir orð hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar, ekkert kostnaðarmat hefur farið fram á því hvað kostar að vinna metanið, t.d. í Gufunesi. Þar var lögð leiðsla upp á 90 milljónir. Ég veit ekki hver á að borga hana.