139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[17:19]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandamálið er það að það fólk sem á að hafa eftirlit með hlutunum virðist hafa lært ósköp lítið. Hér á baksíðu Viðskiptablaðsins er talað um að það að vera góður við náungann sé svo sem góð hugmynd og sömuleiðis það að þykja vænt um náttúruna en ekki sé þar með sagt að hægt sé að binda jákvæðar lífsskoðanir fólks í stjórnarskrá. Ég sat fund með fulltrúum viðskiptalífsins þar sem enn á ný var byrjað að nota þetta orð „eftirlitsiðnaður“, að eftirlitsiðnaðurinn með fjármálakerfinu væri að blása út. Staðreyndin er sú að þær ábendingar sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur komið með eru réttmætar, það er bara ekki nóg að gert enn þá. Fólk hefur ekki lært enn þá. Þar til við erum búin að ná meiri árangri hvað það varðar og samhliða því að við byrjum að tala um skattafslátt vegna kaupa á hlutabréfum ættum við að tala líka um önnur rekstrarform, eins og t.d. samvinnufélög. Við virðumst bara gleyma því að önnur rekstrarform eru líka til. Við erum alltaf að horfa á hlutafélagaformið og einkahlutafélagaformið (Gripið fram í.) — og þetta gerist alls staðar, ef við pössum okkur ekki, vegna þess að það er svo auðvelt og það er svo gott að vinna á þann veg að maður græðir á daginn og grillar á kvöldin. Það er nokkuð sem ég held að við eigum að forðast í lengstu lög.