139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[17:34]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir ágæta framsögu. Eitt sem hv. þingmaður kom inn á var hvernig uppbygging hins nýja Íslands ætti að vera. Reyndar vil ég taka fram að mér finnst þessi hugmynd um hið nýja Ísland vera hálfgerður frasi vegna þess að allt sem við erum að gera miðar raunverulega að því að búa til svipaða lifnaðarhætti og hafa verið undanfarna áratugi og öll hin vestrænu lönd sem hafa komið illa út úr fjármálakreppunni eru að reyna að tryggja. En við eigum að reyna að sníða af agnúana sem m.a. komu fram í því að eftirlitskerfin voru ekki nægilega öflug því að stjórnmálamennirnir höfðu einfaldar hugmyndir um hvernig markaðurinn virkar í raun og veru.

Það er eitt sem ég fæ ekki skilið í því sem hv. þingmaður talaði um og það er þetta með hlutafélagaformið, hvernig í ósköpunum stendur á því að hlutafélög eiga einhvern hlut að máli hérna? Við höfum fengið fjármálakreppur, eins og ég hef rakið, í alls konar stjórnskipulögum síðustu 400 árin. Ég hélt ræðu hér fyrir einhverjum mánuðum þar sem ég rakti fjármálakreppur í mismunandi stjórnskipulögum, hvort sem það var í kommúnistaríkjum, í einvaldsríkjum, í ríkjum þar sem ríkir alger upplausn eða kapítalískum ríkjum, en hvernig má hengja þetta á hlutafélagaformið? Gæti hv. þingmaður útskýrt það aðeins betur.