139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[17:36]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef kannski ekki talað alveg nógu skýrt, ég er ekki að segja að hlutafélagaformið í sjálfu sér hafi orsakað hrunið í hinum vestræna heimi. Ég var að reyna að útskýra að það sé miklu fremur ákveðin hugmyndafræði. Ég sé t.d. fyrir mér samfélag á Íslandi þar sem ríkisgeirinn er öflugur, einkageirinn er öflugur en hér sé líka öflugur þriðji geiri þannig að það sé jafnvægi og við reynum að vera með þetta tiltölulega jafnstórt.

Það sem ég hef verið að velta mikið fyrir mér varðandi hlutafélagaformið og einkahlutafélagaformið, sem er svona minni útgáfa af þessari hugmyndafræði, er sú hugsun að menn eigi ákveðinn hlut og þurfi að passa upp á hann, menn eigi að fá arð, menn eigi að græða persónulega á sínum peningum og það er það sem ég held að menn þurfi einhvern veginn að hafa í jafnvægi vegna þess að á endanum er það þannig að menn geta grætt en aðrir geta tapað svo miklu á móti. Það er hugmyndafræðin þarna á bak við sem ég er að gera athugasemdir við. Við þurfum að ná að innleiða betur líka inn í hlutafélagaformið hugsunina um samfélagslega ábyrgð allra fyrirtækja, okkar allra, að við berum öll ábyrgð á því að tryggja það að við höfum það öll betra, ekki aðeins einhver lítill hópur í samfélaginu. Það er það sem ég hef haft miklar áhyggjur af í skilaboðunum sem við höfum verið að koma á framfæri m.a. í gegnum hlutafélagaformið.