139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[17:38]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir einlægt svar, en það sem ég var að reyna að koma fram í andsvari mínu áðan er hugmyndafræðin, að við getum upplifað hluti eins og hafa orðið á Íslandi, sama hvaða hugmyndakerfi ríkir. Við upplifðum þetta í Hollandi í túlípanaæðinu, við upplifðum þetta í Bretlandi þegar þar voru einvaldar eða konungar, við upplifðum þetta í Kína undir stjórn kommúnista, við höfum upplifað þetta oft og mörgum sinnum í Bandaríkjunum undir hreinu kapítalísku kerfi o.s.frv. o.s.frv. Mönnum hefur aldrei tekist að koma í veg fyrir fjármálakreppur eða kreppur yfirleitt með því að breyta um hugmyndakerfi. Þar af leiðandi held ég að þegar menn segja að það þurfi skipta út hugmyndakerfinu, fara úr því að vera hægri menn yfir í að vera vinstri menn eða fara úr því að vera anarkistar yfir í að vera framsóknarmenn o.s.frv., þá eru þeir að blekkja sjálfa sig með því þá sé búið að girða fyrir það að fjármálakreppur geti skollið á í framtíðinni. Það eru í raun og veru miklu einfaldari hlutir sem þarf að gera. Það þarf að vera eftirlit, það þarf að vera visst gagnsæi og markaðurinn þarf að refsa þeim sem ekki eru tilbúnir til að fara eftir þeim leikreglum.