139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[18:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra gefur mér eiginlega lítið tækifæri til að flytja eitthvert andsvar nema það að hann býður fram sáttarhönd í því að sameina eða búa til ein lífeyrisréttindi fyrir landsmenn. En það var þannig að þegar aðlögunarsamningarnir voru gerðir við opinbera starfsmenn 1997 eða 1996 þegar tekið var upp þetta nýja kerfi, A-deild og annað slíkt, lagði ég til að það yrði hreinlega metið hvers virði lífeyrisréttindi væru, lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Það mátti aldrei og það hefur ekki verið gert enn þá. Ég vildi láta opinbera starfsmenn velja, vildu þeir hafa lág laun og góð lífeyrisréttindi eða hærri laun eins og markaðurinn gefur og lág lífeyrisréttindi? Því miður fórum við ekki þá leið og niðurstaðan varð sú að menn fengu hvort tveggja, há laun eða sömu laun og á markaðnum og góð lífeyrisréttindi, sem eru þannig núna að þau eru við það að sliga ríkissjóð og munu gera það á næstu árum því að þetta eru óskaplegar upphæðir sem þarf að borga vegna B-deildarinnar. Svo þarf væntanlega að hækka iðgjaldið í A-deildinni töluvert mikið. Þetta eru lífeyrisréttindi sem varla er hægt að bjóða allri þjóðinni því að skuldbindingin á hinn vinnandi mann sem stendur undir þessu öllu saman alltaf með sköttum sínum yrði sennilega of mikil, þ.e. lífskjör hins vinnandi manns mundu lækka til að bæta kjör ellilífeyrisþega, þannig að fólk hefði það í rauninni betra þegar það væri komið á ellilífeyri en þegar það var vinnandi á starfsævinni. Ég er ekki viss um að menn vilji það almennt. Menn þurfa að skoða þetta. Ég mundi vilja byrja á því að stöðva réttindaávinnsluna í B-deild frá og með þarnæstu áramótum því að það er 12 mánaða uppsagnarfrestur hjá opinberum starfsmönnum og þess vegna getur maður litið á það sem uppsögn á starfi ef menn halda áfram að vinna sér réttindi í B-deildinni.