139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[21:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af því sem hv. þingmaður endaði á að segja í sambandi við vinnubrögðin þá held ég að fyrst og fremst þurfi að breyta þeim þannig að þingið hafi yfirsýn yfir þær ákvarðanir sem verið er að taka. Ég tel enga yfirsýn vera yfir þær ákvarðanir sem verið er að taka nú enda sjáum við það á umræðunni, ég rakti það áðan. Þrír þingmenn í 1. umr., fimm í 2. umr. og listinn er lengri núna. Þetta sýnir kannski sjálfsblekkingu okkar. Margir hv. þingmenn halda því fram að þetta séu erfiðustu fjárlög sem lögð hafa verið fram en ég er því miður ekki viss um það.

Það sem hv. þingmaður bendir réttilega á í sambandi við þá tæpu 14 milljarða sem eru vegna Lánasjóðs landbúnaðarins í þeirri ríkisábyrgð sem verið er að gjaldfæra núna þá eru þeim til viðbótar um 4 milljarðar vegna lífeyrisskuldbindinga hjá bankanum þegar hann var seldur og að auki um 4,4 milljarðar vegna bréfa með ríkisábyrgð sem ég hef ekki fengið skýringu á af hverju er. Það er ríkisábyrgð á lánum í Landsbankanum sem nema 4,4 milljörðum. Ég hef ekki fengið skýringar á því. Þau eru jafnvel með lokaða gjalddaga 2021 og 2022. Okkur vantar yfirsýnina yfir það sem þarf að gera.

Þetta virðist alltaf vera afgreitt með sama hætti. Núna kemur hæstv. fjármálaráðherra með þetta á síðustu stundu, nokkrum klukkutímum áður en á að fara í 3. umr., svo kemur hann í sjónvarpsfréttum og segir: Þetta er einkavæðingu bankanna að kenna. Það liggur í augum uppi að þetta er ekki vegna fyrri einkavæðingar bankanna. Þeir voru einkavæddir árið 2003 og lánasjóðurinn var seldur 2005 þannig að það kemur þeirri einkavæðingunni ekki við. Það hlýtur því að vera seinni einkavæðingin. Hæstv. fjármálaráðherra er þá að viðurkenna að hann hafi gert mistök sjálfur með því að hafa ekki rænu á því að láta skuldajafna ríkisábyrgðalánin í lánasjóðnum á móti eignunum sem sjóðurinn átti og voru færðar inn í Nýja Landsbankann. (Forseti hringir.)