139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[21:25]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Fyrir liggur breytingartillaga frá fjárlaganefnd við 4. gr. frumvarpsins um 33 milljarða heimild til handa hæstv. fjármálaráðherra til að leggja Íbúðalánasjóði til fé þannig að sjóðurinn nái lögbundnum eiginfjárgrunni sem er 5%. Við gerum okkur öll grein fyrir að það er ríkisábyrgð á sjóðnum og lengi hefur legið fyrir að á hana mundi reyna. Það breytir ekki því að við þingmenn þurfum að hafa glögga mynd af því hvers vegna sjóðurinn þarf á þessu háa fjárframlagi að halda.

Á sameiginlegum fundi félags- og tryggingamálanefndar og fjárlaganefndar var farið yfir forsendur heimildar og ég verð að játa, frú forseti, að mér fannst fundurinn ekki gefa nægilega glögga mynd af fjárþörf sjóðsins eða öllu heldur hvernig hún er til komin. Sjóðurinn hefur þegar afskrifað tæpa 11 milljarða vegna krafna á lánastofnanir vegna skuldabréfa og afleiðusamninga. Þar kunna að bætast við allt að 6 milljarðar en eftir því sem mér skilst er ekki gert ráð fyrir þeim mögulegu afskriftum í fjárheimildinni. Því til viðbótar reiknast mér til að afskriftaþörf sjóðsins verði um 21 milljarður vegna útlána á árunum 2008–2013. Þessar afskriftir eru vegna lána sjóðsins til einstaklinga, leigufélaga, byggingarverktaka og vegna fjármögnunar sjóðsins á húsnæðislánum í bankakerfinu. Síðan kemur fram að áætlað sé að afskriftir vegna samkomulags um vanda skuldugra heimila verði á bilinu 10–13 milljarðar. Samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum liggur ekki fyrir hve mikil skörun er á milli áætlaðra afskrifta og afskrifta sem koma til vegna samkomulags um lausn á vanda skuldugra heimila. Samkvæmt upplýsingum sem nefndirnar fengu getur fjárþörf sjóðsins orðið á bilinu 35 milljarðar til rúmlega 43 milljarða á árunum 2010–2011. Ég óttast að tap sjóðsins geti jafnvel orðið meira en ég hef ekki gögn til að meta það með fullnægjandi hætti.

Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn komu einnig á fund nefndarinnar. Bent var á að Íbúðalánasjóður heyrði ekki undir lög um fjármálafyrirtæki og því væru eftirlitsheimildir þessara tveggja stofnana minni en æskilegt væri, sérstaklega nú þegar við lítum til þess að sjóðurinn er annar stærsti lánveitandi í íslenska hagkerfinu. En auk takmarkaðri eftirlitsheimilda eru hæfiskilyrði um framkvæmdastjóra og stjórn varðandi Íbúðalánasjóð ekki sambærileg lögum um fjármálafyrirtæki.

Eins og ég sagði fyrr í ræðu minni geri ég mér grein fyrir því að ríkið verður að taka ábyrgð á fjárhagsvanda Íbúðalánasjóðs en til að ég geti samþykkt heimildina að svo stöddu er mikilvægt að Alþingi samþykki þingsályktunartillögu sem er til umfjöllunar í allsherjarnefnd um rannsókn á sjóðnum frá aðdraganda breytinganna á fjármögnun og lánareglum hans sem hrint var í framkvæmd árið 2004. Markmið rannsóknarinnar er í fyrsta lagi að meta áhrifin af þeim breytingum, stefnu sjóðsins og einstökum ákvörðunum á þessum tíma og fjárhag sjóðsins og fasteignamarkaðinn í heild sinni. Í öðru lagi að meta áhrifin af starfsemi Íbúðalánasjóðs og stjórnun efnahagsmála. Í þriðja lagi að leggja mat á hversu vel sjóðnum hefur tekist að sinna lögbundnu hlutverki sínu á þessu tímabili. Í því sambandi þarf m.a. að skoða viðbrögð sjóðsins við aukinni samkeppni banka um íbúðalán, m.a. uppgreiðslum á lánum sjóðsins og hvernig hann sinnti verkefnum sínum, sérstaklega 9. mgr. 9. gr. laga um húsnæðismál sem kveður á um að sjóðurinn eigi að fylgjast með íbúðaþörf í landinu.

Einnig þarf að skoða breytingar á fjármögnun lánveitinga sjóðsins úr húsbréfum í húsnæðisbréf sem bundu uppgreiðslumöguleika sjóðsins, samskipti Íbúðalánasjóðs við Seðlabanka Íslands vegna lausafjár sjóðsins, kaup Íbúðalánasjóðs á greiðsluflæði lána í bönkum og sparisjóðum með miklu hærra hámarkslánsfjárhæð en reglugerð félagsmálaráðherra gerði ráð fyrir, lánveitingar til byggingarverktaka jafnvel án bankaábyrgða á ákveðnu tímabili, reglugerð félagsmálaráðherra nr. 896/2005 og hvernig hún samræmdist kröfum um áhættustýringu, helstu ástæður fyrir taprekstri sjóðsins frá 2008 og eftirlit Alþingis, ráðuneytis og stofnana á borð við Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands með starfsemi sjóðsins. Var það fullnægjandi?

Frú forseti. Með rannsókninni fáum við glögga mynd af því hvernig tap sjóðsins er til komið og getum markað sjóðnum stefnu og starfsreglur til framtíðar og komið í veg fyrir að slík fjárhagsáföll á ábyrgð ríkisins endurtaki sig. Þannig sinnum við þingmenn grundvallarhlutverki okkar.