139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[22:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að staldra við eitt sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni. Það sem hann sagði og vitnaði í restina í skýrslu Ríkisendurskoðunar var að ríkisábyrgðin hefði kviknað vegna þess að skuldir Lánasjóðs landbúnaðarins hefðu verið skildar eftir í gamla Landsbankanum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé algjörlega sannfærður um að mistökin hafi ekki verið gerð þegar Nýi Landsbankinn var stofnaður með nýju einkavæðingunni sem Vinstri grænir stóðu fyrir fyrir ári. Mér er ómögulegt að skilja að ef maður er með ríkisábyrgð á skuldbindingum lánasjóðsins, fyrir lánum sem hann tekur, að eignirnar séu færðar inn í Nýja Landsbankann og skuldirnar skildar eftir í gamla Landsbankanum. Þetta hefði að mínu viti átt að skuldajafna eins og er gert í mörgum tilfellum. Á þeim fundi sem hv. þingmaður var að vitna í kom fram að til að mynda forsvarsmenn Íbúðalánasjóðs gerðu athugasemd við að svo hefði ekki verið og upplýstu á þeim fundi að komið hefði í ljós á fundi með Fjármálaeftirlitinu að ekki hefði verið ásetningur að færa eignirnar inn í nýja bankann og skilja skuldirnar eftir í þeim gamla.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann sé algjörlega sannfærður um að mistökin hafi verið gerð þarna þó að ég geti að sumu leyti tekið undir með honum, menn hefðu átt að setja í farveg hvernig hægt væri að aflétta ríkisábyrgðunum þegar Lánasjóður landbúnaðarins var seldur á sínum tíma. Mér finnst ekki vera innstæða fyrir fullyrðingu hv. þingmanns þegar hann heldur því fram að mistökin hafi verið gerð á þessum tíma. Er hann algjörlega sannfærður um það? Ég ítreka spurningu mína í þriðja sinn um það hvort engin mistök hafi verið gerð við einkavæðingu nýju bankanna með því að færa eignirnar af Lánasjóði landbúnaðarins inn í nýja bankann og skilja skuldirnar eftir í gamla bankanum.