139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[22:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þingmaður sleppa dálítið vel frá þessu. Menn deila ekki um hvort skuldfæra eigi upphæðina núna eða ekki, það liggur alveg fyrir. Ástæðan fyrir því að ég kalla eftir þessum svörum er sú að það liggur nefnilega ekki ljóst fyrir hvenær mistökin voru gerð. Hv. þingmaður segir að það hafi einungis verið deilur milli þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins og þeirra aðila sem voru á fundi fjárlaganefndar, það er alrangt. Ég minni bara á að hv. þm. Oddný Harðardóttir, sem nú er formaður fjárlaganefndar, upplýsti áðan að hún væri ekki alveg viss um hvenær mistökin hefðu verið gerð, hvort þau hefðu verið gerð þegar sjóðurinn var seldur, við setningu neyðarlaganna eða þegar nýju bankarnir voru stofnaðir. Ég held því að hv. þingmaður sé dálítið einangraður í afstöðu sinni.

Hins vegar verð ég að fagna því sem hv. þingmaður segir að það sé mjög mikilvægt að menn rannsaki þetta mál og læri af niðurstöðunni en séu ekki með einhverjar fullyrðingar um hvað þeir telji hafa gerst áður en niðurstaða fæst í þá rannsókn sem greinilega þarf að fara í. Það er aðalatriði málsins.