139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegi forseti. Nú er kominn sá árstími sem er kallaður svartasta skammdegið. Þjóðir á norðurslóðum hafa löngum haft áhyggjur af þessum árstíma og hafa af því tilefni haldið hátíð ljóssins einmitt um það leyti sem gangan inn í birtuna hefst á ný. Það stafar af því að sá sem situr í myrkrinu þarf á ljósi að halda, hann þarf á einhverri von að halda. (BirgJ: Heyr, heyr.)

Núna förum við að einbeita okkur að því að ræða um fjárlög á mjög erfiðum tímum. Það er lítið til af peningum í þessu þjóðfélagi, það er búið að stela megninu af þeim frá þjóðinni. Úti í þjóðfélaginu geisar ótrúlega neikvæð þjóðmálaumræða. Það sama má segja um þingið okkar. Umræðan hérna er oftar en ekki alveg óskaplega neikvæð. Það er kvartað undan því sem gert er, það er vitlaust, það er kvartað undan því sem ekki er gert. Það er allt biksvart og engin von fram undan og ég vil minna þingið á að von og bjartsýni eru líka verðmæti.

Mig langar til að beina þeirri fyrirspurn til formanns stærsta stjórnmálaflokksins — (Gripið fram í.) í stjórnarandstöðu — (Gripið fram í.) lofið mér að klára, verið jákvæð, (Forseti hringir.) hv. þm. Bjarna Benediktssonar, hvort hann telji ekki að við þurfum að tendra ljós í hjörtum þjóðarinnar (Gripið fram í.) í stað þess að standa hér og bölva myrkrinu stöðugt. Ég vil fá þverpólitíska sátt um bjartsýni og von. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)