139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

störf þingsins.

[14:22]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér er hvatt til jákvæðni og bjartsýni. Því ætla ég að vera frekar á jákvæðu nótunum. Ég fagna því sérstaklega sem kom fram í umræðunni áðan hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni og hv. þm. Kristjáni L. Möller um að nú stefni í að þingið taki frumkvæði í því máli sem ríkisstjórninni er greinilega um megn og það er að leysa þau skattalegu álitamál sem hafa staðið uppbyggingu gagnavera hér á landi fyrir þrifum. Ég tel þetta afar jákvætt skref vegna þess að — hvað höfum við heyrt? Í 20 mánuði hefur hæstv. fjármálaráðherra komið hingað reglulega og sagt málið óendanlega flókið. Og hann hefur dæst og hann hefur haft miklar áhyggjur af þessu máli og ekkert gert til að leysa það.

Nú er búið að taka hér gott skref með því að færa þetta yfir í iðnaðarnefnd. Ég treysti því að þetta verði afgreitt og ég lýsi fullum stuðningi mínum við það að klára þetta mál farsællega fyrir jólaleyfi þingsins vegna þess að þetta skiptir sköpum, ekki bara fyrir það gagnaver sem um ræðir suður með sjó heldur fyrir öll gagnaver í landinu vegna þess að þau bíða öll eftir því að úr þessum álitamálum verði greitt.

Ég vildi koma hingað í anda ljóss og friðar og fagna þessu jákvæða skrefi sem þingið hefur tekið. Ég hvet okkur öll til að standa að baki því sem hér var boðað af hálfu þingmannanna tveggja.