139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

störf þingsins.

[14:24]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi gjarnan geta tekið undir orð nöfnu minnar, hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þess efnis að við séum að taka skref fyrir skref í rétta átt. En það er því miður ekki þannig. Við erum sannarlega að taka skref fyrir skref, en við erum að taka skref niður í kjallara. Við förum sömu leið og Finnar og Færeyingar þrátt fyrir að við ætluðum sannarlega að læra af reynslu þeirra. Það er sárt en að lokum munum við auðvitað læra og snúa úr þeim ógöngum.

Við erum að ljúka fjárlagavinnunni og ég hvet stjórnarmeirihlutann og ráðherrana í sambandi við niðurskurð á heilbrigðissviði. Sem betur fer hefur tekist að snúa við þeim hálfgölnu hugmyndum sem komnar voru fram, m.a. um niðurskurð á landsbyggðinni, og mér skilst að þær séu orðnar mjög hóflegar og skynsamlegar hvað þetta ár varðar. En það er ekki nóg. Það þarf að lýsa því yfir að sú stefna sem var mörkuð upphaflega hafi verið röng og að menn hafi snúið af henni. Það þýðir ekki að skera niður ár eftir ár næstu þrjú árin og ná sama árangri á þremur árum og átti að gera í einu höggi. Það er óbreytt stefna. Samhliða þessari vinnu um minni niðurskurð, sem ég styð eindregið, þarf að lýsa því yfir að þessi stefna hafi verið röng.

Þá tek ég einnig undir það sem kom m.a. fram í máli hv. þingmanns og formanns iðnaðarnefndar, Kristjáns L. Möllers, um að hér sé verið að vinna jákvæða vinnu í þinginu við að leysa mál sem ríkisstjórnin hefur ekki haft dug eða getu til að leysa. Ég hvet ríkisstjórnina, eða kannski okkur í þinginu, í nefndunum, til að leysa þessi mál sem snerta atvinnumál á öllu landinu. Mörg þeirra hafa snúið að Suðurnesjum, til að mynda ECA-verkefnið, færsla Landhelgisgæslunnar á Suðurnesjum og (Forseti hringir.) önnur minni verkefni sem munu sannarlega sýna bæði trú, von og bjartsýni til handa fólkinu í landinu.