139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

störf þingsins.

[14:26]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem upp vegna orða hv. þm. Eyglóar Harðardóttur um heimilislæknaskortinn. Ég verð að segja eins og er að frá því að ég fyrst man eftir mér hefur verið rætt um skort á heimilislæknum hér á landi, því miður, sem hlýtur að segja okkur að í áranna rás hefur stjórnvöldum og menntastofnunum mistekist að fá fólk í greinina eins og þörf krefur. Ég held að við ættum að snúa við blaðinu og móta heilbrigðisstefnu sem byggir á öflugri heilsugæslu um allt land sem getur veitt þverfaglega þjónustu, eins og hv. þm. Þuríður Backman benti á, þar sem heimilislæknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, jafnvel iðjuþjálfar og félagsráðgjafar, vinna saman til að veita fólki þjónustu. Ef hún dugar ekki er vísað með tilvísunum til sérfræðinga og ef fólk verður verulega veikt leggst það inn á sjúkrahús sem er vonandi í fæstum tilvikum og alltaf bara ef þörf krefur. Þannig á heilbrigðiskerfið að snúa gagnvart okkur öllum, hvar sem við búum, hvort sem við erum á Akureyri, í Hafnarfirði, á Ísafirði eða Egilsstöðum. Þannig held ég að við ættum að vinna og þá held ég að við leysum þennan vanda. Það gerist ekki með einhverju þriggja mánaða átaki. Það gerist með stefnumótun og áætlanagerð til langs tíma. Ég hef fulla trú á því að í þessum sal finnist vilji til að vinna með þessum hætti í öllum flokkum og að við getum gert það.

Bara rétt í lokin, frú forseti, ætli sú staðreynd að um það bil 16% þjóðarinnar vilji að stjórnarandstaðan taki við stjórnartaumunum skýrist ekki af ræðuhöldum (Gripið fram í.) eins og þeim sem hv. þm. (Gripið fram í.) Þór Saari hélt uppi í þessum ræðustól fyrir nokkrum mínútum? (Forseti hringir.) Þvílíkt svartagallsraus.