139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2010 og það er um margt óvenjulegt. Í fyrsta lagi kemur það skýrt fram að aukinn agi ríkir nú við framkvæmd fjárlaga og birtist m.a. í því að flestar stofnanir halda rekstri sínum innan fjárheimilda og afkoman er betri en búist var við og því ber að fagna.

Einnig koma hér fram slæmar afleiðingar efnahagshrunsins fyrir ríkissjóð, bæði með nauðsynlegum aðgerðum til að bæta stöðu Íbúðalánasjóðs og einnig með því að skuldbinding vegna ríkisábyrgða, sem ekki var aflétt við yfirfærslu í einkabanka á sínum tíma, er gerð ljós og viðurkennd í efnahagsreikningi. Glíman við afleiðingar vondra ákvarðana, sem teknar voru á árunum fyrir hrun, stendur enn þó að með markvissum aðgerðum sjái senn fyrir endann á henni.