139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:43]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ríkisendurskoðun hefur á undanförnum tveimur áratugum bent ítrekað á ýmsa misbresti á framkvæmd fjárlaga. Virðingarleysið fyrir bindandi fyrirmælum fjárlaga hefur verið gagnrýnt sem og almennt agaleysi í rekstri fjölmargra stofnana.

Þegar öllu er á botninn hvolft felst vandamálið í agaleysi, bæði forstöðumanna, sem hlut eiga að máli, og stjórnenda þeirra ráðuneyta sem forstöðumenn heyra undir. Þetta eru ummæli, virðulegi forseti, sem finna má í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga undanfarinna ára og bera fjármálastjórn ríkisins ekki góða sögu.

Það frumvarp sem hér er verið að taka til afgreiðslu, frumvarp til fjáraukalaga 2010, vitnar hins vegar um að nú hefur orðið breyting þar á. Í fyrsta sinn á síðari tímum hefur tekist að koma böndum á útgjöld ríkisins þannig að þau eru nú innan þess ramma sem fjárlög kveða á um í stað útgjaldaaukningar upp á tugi milljarða kr. eins og venja var til fram til þessa.

Það er vert að vekja athygli á þessum staðreyndum, virðulegi forseti, við afgreiðslu þessa máls.