139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:48]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Hér er verið að gera breytingar og leiðréttingar á sköttum og skatttekjum ríkissjóðs í fjárlögum 2010, mjög margvíslegar og miklar breytingar til að leiðrétta þau mistök sem gerð voru við fjárlagasetninguna fyrir árið 2010 og margoft var varað við í aðdraganda þeirrar lagasetningar rétt fyrir síðustu jól.

Með öðrum orðum þá var haldinn sami lesturinn um forsendur fyrir tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 2010 og nú hefur verið haldið uppi fyrir árið 2011. Á honum var ekki tekið mark við fjárlagagerðina fyrir árið 2010. Vonandi ber stjórnarmeirihlutinn gæfu til að taka meira mark á aðvörunarorðum þeim sem sett eru fram um tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 2011 en raun bar vitni fyrir árið 2010. (Gripið fram í: Hvar er bjartsýnin?)