139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Með því að leggja til að skuldbindingar þær sem hér um ræðir verði færðar í efnahagsreikning eins og aðrar skuldir ríkissjóðs er þinginu ljóst hvaða skuldbindingar ríkið verður að axla. Þetta eru skuldbindingar sem leiða af falli bankanna, ríkisábyrgðir sem fylgdu þegar sjóðir voru fluttir í einkabanka og þeim var ekki aflétt og ríkið getur ekki vikið sér undan.

Tilgangurinn með tillögunni er að koma þessu á framfæri við þingið og draga þar með málið fram í dagsljósið. Ábyrgð ríkisins er ótvíræð hvað þetta varðar þótt ríkissjóður muni eftir sem áður gera kröfur í þrotabú bankanna um endurheimtur. Ríkissjóður hefur greitt afborganir og vexti frá árinu 2008 til að forðast vanskil. Engar greiðslur úr ríkissjóði eiga sér stað í tengslum við þessa ráðstöfun heldur er eingöngu um að ræða gjaldfærslu í ríkisreikninginn.