139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:53]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Sú færsla sem hér liggur fyrir hefur verið allnokkuð rædd í fjárlaganefnd eftir að málið var tekið út úr nefnd og fór til þingsins. Ýmsar spurningar eru uppi varðandi þetta mál. Það er ekki óumdeilt að ábyrgð ríkissjóðs á þeim skuldbindingum sem hér um ræðir sé fyrir hendi. Þetta vekur upp spurningar um meðferð ábyrgðarinnar við sölu á Lánasjóði landbúnaðarins. Þetta vekur líka upp spurningar um meðferð hennar við sölu og einkavæðingu bankanna á síðasta ári. Og þar sem ábyrgðarinnar hefur verið getið í ríkisreikningi frá árinu 2004 þá vekur þetta ekki síst upp spurningar um hvers vegna þetta er fært með þessum hætti til bókar í ríkisreikningum. Ef maður les athugasemdirnar með ríkisreikningnum er ætlast til að það sé ekki gert fyrr en uppgjöri föllnu bankanna sé lokið. (Forseti hringir.) Engar heimildir eru um að það uppgjör sé frá.