139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:55]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því sem kom fram í máli formanns fjárlaganefndar að færa eigi þetta í efnahagsreikning en set sömu spurningarmerki og aðrir við að það sé gert áður en bankarnir eru endanlega gerðir upp. Hér er sagt að gerð hafi verið mistök þegar Lánasjóður landbúnaðarins var seldur árið 2005. Ég er ekki viss um það, engin gagnrýni á að ábyrgðunum var ekki aflétt kom fram á Alþingi á þeim tíma. Mér er til efs að hægt sé að selja þessar kröfur til einkabanka án þess að ríkisábyrgðin fylgi með. Síðan getum við velt fyrir okkur hvort það var rétt eða rangt að selja sjóðinn yfir höfuð.

Annað sem mig langar til að leiðrétta. Formaður fjárlaganefndar nefnir í máli sínu að búið sé að lýsa kröfu í þrotabú gömlu bankanna. Það er algjörlega tilgangslaust að lýsa þeirri kröfu að mínu mati vegna þess að ekkert mun koma út úr henni. (Forseti hringir.) Eignin eða lánin eru komin yfir til nýju bankanna og það eru mistök sem ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) gerði. Þeir eiga ekki að henda þessari kartöflu á ríkisstjórnir (Forseti hringir.) fyrri ára.