139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:03]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Íbúðalánasjóður varð fyrir miklu tjóni vegna efnahagshrunsins. Þjóðin hefur afskrifað ríflega 10 milljarða frá haustinu 2008 fram á þetta ár og framlag í afskriftasjóð vegna útlánatapa gagnvart útlánum fyrir einstaklinga og lögaðila nemur nú um 4,5 milljörðum kr. Eiginfjárhlutfall sjóðsins hefur hrunið frá því að vera 7% árið 2007 í 2,1% um mitt yfirstandandi ár. Það er deginum ljósara að Íbúðalánasjóður þarf á auknu framlagi að halda til að bæta eiginfjárstöðu sína og standa undir þeirri skyldu sem við ætlum honum að gera. Auk þess er Íbúðalánasjóði ætlað að koma að þeim aðgerðum sem ákveðið hefur verið að fara í til að létta á skuldsettum heimilum vegna efnahagshrunsins. Hér er því um dæmigert hrunmál að ræða, virðulegi forseti, sem ekki verður undan vikist að bregðast við með þeim hætti sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að gert verði.

Ég skora á minni hlutann hér á þingi, sérstaklega þá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem sátu þó í fyrri ríkisstjórn og studdu hana, að fara nú að kannast við sína pólitísku króga eftir hrunið þó að þeir líti ekki allir vel út. (Gripið fram í.)