139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:14]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Við greiðum hér atkvæði um lið sem fjallar um það að stofna hlutafélag um búrekstur Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Ég tel ástæðu til að fara örlítið yfir það mál hér. Á Hvanneyri er rekið sauðfjárbú, nautgripabú og hrossaræktarbú á þremur ólíkum stöðum. Þegar hrunið varð 2008 fóru menn að skoða með hvaða hætti hægt væri að hagræða í búrekstrinum. Menn komust að þeirri niðurstöðu að það væru mikil samlegðaráhrif af því að færa þetta allt saman í eitt form og stýra þessu öllu frá einum stað. Niðurstaðan varð sú að fara þá leið að stofna um þetta einkahlutafélag. Ég hef ákveðnar efasemdir um að það hafi verið rétta leiðin nákvæmlega, en þetta er orðinn hlutur. Þetta félag hefur nú starfað í á annað ár og verið er að leita formlegrar heimildar, en hér er alls ekki um einkavæðingu að ræða því að slíkt yrði að koma til kasta Alþingis og það er ekki í stefnu núverandi ríkisstjórnar [Kliður í þingsal.] að gera slíkt. Núverandi (Forseti hringir.) ríkisstjórn hefur það á stefnuskrá sinni að Landbúnaðarháskóli Íslands verði áfram sjálfstætt starfandi háskóli og það hefur mikið breyst í stefnu stjórnvalda gagnvart þeim skóla eftir að núverandi ríkisstjórn tók við. (Gripið fram í: … einkavæðingu …)