139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:18]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Vissulega ber að þakka það sem vel er gert. Óumdeilt er að margar ríkisstofnanir hafa tekið sig á í framkvæmd fjárlaga. Engu að síður er í ljósi þeirra úttekta sem við fáum nokkuð reglulega í fjárlaganefnd frá Ríkisendurskoðun [Kliður í þingsal.] — ef ég mætti fá hljóð á ráðherrabekk — þú hefðir gott af því, hæstv. landbúnaðarráðherra, og ekki síður utanríkisráðherra, að hlýða á það sem ég segi — í ljósi þeirra úttekta sem fjárlaganefnd fær frá Ríkisendurskoðun um afkomu einstakra stofnana er full ástæða til að gjalda varhug við því að við séum búin að ná einhverjum heljartökum á þessu dæmi.

Ég minni einnig á gríðarlega ánægju hæstv. fjármálaráðherra við framlagningu frumvarps til fjáraukalaga þar sem gert var ráð fyrir 40 milljarða kr. afgangi. Við sátum kannski ekki undir skömmum frá hæstv. ráðherra fyrir að hæla honum ekki fyrir þessa afkomu en það mátti engu muna. Við strukum hæstv. ráðherra samt þokkalega fyrir (Forseti hringir.) þann árangur en 25 milljarðar kr. af því fóru á hálfum mánuði. Það er ekki til fyrirmyndar.