139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða um stöðu Íbúðalánasjóðs. Einhverjir gætu sagt: Þótt fyrr hefði verið. Við heyrðum í umræðu áðan um fjáraukalagafrumvarpið að þetta mál er í miklu uppnámi. Ef það er skoðað kemur í ljós, miðað við þau minnisblöð sem liggja frammi, að við ársuppgjör sjóðsins árið 2009 var ráðherra tilkynnt um stöðuna, þ.e. í byrjun þessa árs. Þáverandi ráðherra setti á laggirnar vinnuhóp sem skilaði tillögum í júní á þessu ári. Í millitíðinni spurði hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hæstv. fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon um stöðu sjóðsins og tillögur sem tengjast honum. Svarið var að þær kæmu innan skamms, eins og hæstv. ráðherra orðaði það.

Lítið gerðist á vettvangi þingsins. Ég spurði hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra þann 16. október á þessu ári og fékk svar 11. nóvember. Að vísu vantaði mikið upp á þau svör sem ég hef síðan fylgt eftir, t.d. er engu svarað um sérfræðikostnað. Það kemur líka skýrt fram að þeir ráðherrar sem á undan komu hafa fullkomlega brugðist þeirri lagaskyldu sinni sem vísar til þess að Íbúðalánasjóður átti að fylgjast með íbúðaþörf á landinu og áætlanagerð sveitarfélaganna um þörf á íbúðarhúsnæði.

Virðulegi forseti. Kjarninn í þeim vanda sem við erum í núna er kannski sá að hæstv. ráðherrar sem á undan komu brugðust fullkomlega þessari lagaskyldu. Við þurfum að ræða það betur.

Ýmsar athyglisverðar upplýsingar komu hins vegar fram í svarinu. Engar góðar. Það kom fram að Íbúðalánasjóður tapaði 325 millj. kr. í peningamarkaðssjóðum bankanna. Íbúðalánasjóður tapaði 10.500 millj. kr., virðulegi forseti, í vaxtaskiptasamningum og skuldabréfaviðskiptum. Eiginfjárhlutfall sjóðsins fór úr 7,1% 2007 niður í 2,1% á þessu ári, en eiginfjárhlutfallið á að vera 5%. Það kom líka fram að sjóðurinn situr uppi með 1.100 íbúðir í lok þess árs.

Nú gæti einhver spurt: Voru þetta ekki fullnægjandi svör? Því fer víðs fjarri, virðulegi forseti, því að það á eftir að afskrifa verulega hjá sjóðnum. Það er ekki kominn botn í það hvernig þessi viðskipti við sparisjóði í landinu áttu sér stað, ekki heldur um leiguíbúðafélög og ýmislegt annað.

Í minnisblaðinu sem var dreift í hv. fjárlaganefnd og hv. félagsmálanefnd þann 3. desember á þessu ári kom fram að setja þyrfti í sjóðinn annaðhvort 35 eða 43 milljarða kr.

Virðulegi forseti. Núverandi ríkisstjórn er búin að vera að skoða málið allt þetta ár. Þetta er ekki í fjárlögunum. Spurningum er svarað seint og illa, þetta er sett inn í fjáraukann og þess er farið á leit við hv. þingmenn að þeir klári málið hratt og vel. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson lýsti því ágætlega hvernig vinnubrögðin voru í hv. fjárlaganefnd í þessu risamáli.

Af því tilefni, virðulegi forseti, spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hversu mikið má áætla að eigið fé og eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs verði á árunum 2010–2012, sundurliðað eftir árum, leggi íslenska ríkið sjóðnum ekki til aukið fé?

2. Hver er fjárþörf Íbúðalánasjóðs á næstu árum að mati ráðherra?

3. Ætlar ráðherra að beita sér fyrir rannsókn á sjóðnum?

4. Af hverju er spurningum mínum ekki svarað, sbr. þskj. 229, 89. mál?

5. Hvenær fæ ég svar við þeim spurningum sem ég hef lagt inn í framhaldinu?

6. Af hverju voru fjárlaganefnd og félagsmálanefnd ekki upplýstar fyrr en nú, nánar tiltekið 3. desember, um stöðu sjóðsins?

7. Er gert ráð fyrir að ríkissjóður fái til baka þá fjármuni sem lagðir eru inn í sjóðinn, þá á hvaða kjörum og á hve löngum tíma?