139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:35]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, ef það er rétt hjá honum að framsóknarmenn hafi bjargað Íbúðalánasjóði eiga þeir náttúrlega þakkir skildar fyrir það. (EyH: Ef?)

Íbúðalánasjóður er eins og við vitum hluti af þeirri hugsun sem við höfum hingað til búið við í þessu landi, að húsnæðisöryggi allra sé tryggt, allir eigi kost á því að búa við öryggi í þeim málum. Ég tel hins vegar að við þurfum að víkka þá hugsun, við verðum að víkka hana út í að ekki þurfi endilega að eiga húsnæði til að búa við þetta öryggi. Ég tel að með frumvarpi um kaupleigukerfi og skyld mál sem hafa komið upp í þinginu og verið lögð hér fram getum við alveg víkkað þessa hugsun og farið lengra í því að frelsa fólk frá þessum klafa sem við Íslendingar höfum alltaf lagt á fólk, þá kannski sérstaklega vissir stjórnmálaflokkar, að allir verði að eiga þak yfir höfuðið. Það er ástæða til að breyta þessari hugsun í að allir verði að hafa tryggt þak yfir höfuðið. Það er lykilatriðið. Í því efni eigum við að horfa til þess að koma upp tryggum og öruggum leigumarkaði. Samráðshópur félags- og tryggingamálaráðherra um húsnæðismál er einmitt að ræða hugmyndir í þá veru nú.

Virðulegi forseti. Öryggi í húsnæðismálum er lykilatriði og þar þurfum við að tryggja að félagsleg staða og félagslegt íbúðalánakerfi standi undir nafni og einnig að önnur og fjölbreyttari form til að tryggja þetta öryggi standi íbúum og þjóðinni allri til boða.