139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

mannvirki.

78. mál
[15:56]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Eins og fram hefur komið mæli ég fyrir nefndaráliti umhverfisnefndar um frumvarp til laga um mannvirki, sem er 78. mál þingsins. Frumvarpinu er ásamt skipulagslögum, sem nú hafa númerið 123/2010, og voru samþykkt í september, ætlað að koma í stað núgildandi skipulags- og byggingarlaga og mannvirkjafrumvarpið var á síðasta þingi lagt fram samhliða skipulagslagafrumvarpinu og reyndar brunavarnabreytingafrumvarpi sem líka er á dagskrá í dag. Þessi þrjú frumvörp frá síðasta þingi tengjast þannig að ekki er hægt að slíta þau í sundur.

Sams konar frumvörp höfðu áður verið lögð fram á 133. og 135. þingi og raunar nær saga þessarar lagabreytingar átta ár aftur í tímann því að hún var hafin árið 2002 og það væri töluverður áfangi fyrir þingið og fyrir framþróun í þessum málaflokki ef okkur tækist að koma þessi verki af fyrir jól. Raunar var álit manna það, þegar við á síðasta þingi ræddum þetta mál við gesti og ráðgjafa, að ef þetta gæti ekki orðið á þessu ári eða á einhverjum slíkum tíma væri rökréttara að hefja verkið upp á nýtt og það gæti þá tekið önnur átta ár. Þannig má þetta ekki ganga þó að um erfiða hluti sé að tefla og tæknilega flókin mál víða á þessum vettvangi.

Skipulagslögin frá í september taka sem sé gildi 1. janúar 2011, um næstu áramót, og þá skorti nefndina tíma og svigrúm til að ljúka umfjöllun um hin frumvörpin tvö og tók þann kostinn að reyna að ná skipulagsfrumvarpinu, gera það að lögum og þingið samsinnti því. Þau frumvörp tvö sem eftir voru voru endurflutt nánast óbreytt núna snemma haustþings og hafa eðli málsins samkvæmt verið rædd samhliða í umhverfisnefnd. Nefndin ákvað að nýta umsagnirnar frá því í fyrra en gaf þeim þó kost á að senda inn nýjar umsagnir eða eins konar viðbótarumsagnir sem höfðu gert það í fyrra. Einhver mistök kunna að hafa orðið við þetta verk, sem ég bið forláts á fyrir okkar hönd, en að mestu gekk þetta svona. Flestar umsagnirnar sem bárust nú voru nokkurn veginn samhljóða því sem var á síðasta þingi.

Umfjöllunin fyrir 2. umr. bar nokkurn keim af þessu þannig að nefndin bauð ekki til sín gestafjöld, ákvað að geyma það til 3. umr. en studdist við munnlegar umsagnir og álit þeirra gesta sem komu á fund nefndarinnar í september á síðasta þingi.

Í þessu frumvarpi um mannvirki eru lögð til ýmis nýmæli, eins og segir í nefndaráliti, til að mynda að greint verði milli skipulagsmála og byggingarmála eins og gert er ráð fyrir í skipulagslögunum, ábyrgð aðila verði skýrð, reglur verði settar um rannsóknir um tjón á mannvirkjum og að sett verði á fót ný stofnun sem hafi eftirlit með framkvæmd laganna auk ýmissa annarra verkefna, þar á meðal núverandi verkefna Brunamálastofnunar sem lögð verður niður. Um er að ræða tvær stofnanir fyrir annars vegar Skipulagsstofnun og hins vegar Brunamálastofnun, sem skipti verkefnum sínum með öðrum hætti og verði að lokum að annars vegar Skipulagsstofnun og hins vegar því sem í frumvarpinu er kallað Byggingarstofnun en nefndin leggur til að kallað verði Mannvirkjastofnun í samræmi við heiti frumvarpsins þó að fullu samræmi verði nú ekki náð í þetta. Kannski verður það seint því að annars vegar er Mannvirkjastofnun og hins vegar eru byggingarfulltrúar í sveitarfélögum og byggingarnefndir þar sem sveitarfélögin kjósa að hafa slíkar nefndir í gangi.

Það er einmitt meðal annarra breytinga sem lagðar eru til að stjórnsýsla sveitarfélaga geti verið þannig að sveitarfélag kjósi ekki byggingarnefnd ef það kýs að gera það ekki en verkefni byggingarnefndarinnar í sveitarfélagi færist til byggingarfulltrúa. Þarna eru líka breytingar á ákvæðum um úttektir þar sem m.a. er kveðið á um öryggisúttekt áður en mannvirki er tekið í notkun, breytingar á ákvæðum um eftirlit og þvingunarúrræði og auk þess er kveðið á um faggildingu byggingarfulltrúa.

Við umfjöllun nefndarinnar um málið urðu til nokkrar breytingartillögur í sérstöku þingskjali sem er kannski meira að vöxtum en innihaldi vegna þess að við kusum að samræma þessa texta og gera málfarsleiðréttingar eða hleypa þeim í ákveðna andlitslyftingu þannig að málfar væri nokkuð samræmt á þeim og þá skárra en það var, en þetta er auðvitað eðli málsins samkvæmt samsafn úr ýmsum textum, gömlum og nýjum. Þau efnisatriði sem mesta umfjöllun fengu voru þessi nýja stofnun sem fyrirhugað er að setja á fót og málin kringum hana, verkefni hennar, heimildir hennar og staðsetning, staða byggingarnefnda og víðtækara hlutverk byggingarfulltrúa, löggilding og réttindi starfsstétta og rafrænt gagnasafn stofnunarinnar.

Þá er fyrst að nefna að nefndinni barst mikill fjöldi ábendinga og athugasemda frá fagfélögum og stofnunum og einstökum mönnum sem starfa á þessu sviði um atriði sem eru tengd ákvæðum um starfsréttindi og löggildingu einstakra fagstétta. Nefndin ákvað að hreyfa ekki við þessum ákvæðum í frumvarpinu eftir nokkra skoðun en telur að eitt næstu skrefa í endurskoðunarstarfi á þessu sviði hljóti að vera að undirbúa lagabreytingar um starfsréttindi og löggildingu í samráði við fagstéttirnar og hvetur umhverfisráðherra í nefndaráliti sínu til að hraða því verki sem verða má. Ég hygg að þetta eigi eftir að vekja óánægju ýmissa stétta því að það er þannig að ef stéttabaráttan, svo notað sé orð sem við létum út úr okkur í gamni í nefndinni, fær ekki að vindast fram eins og hin sögulega nauðsyn knýr á um — þannig að ég tali í svona vúlgarmarxískum hugtökum — þá er það sú stétt sem fyrir er, ráðandi stétt, sem heldur áfram að vera ráðandi og það er ekki endilega æskilegt, hvorki í hinni sögulegu framvindu né í þróun verkaskiptingar milli fagstétta af þessu tagi. Við erum sem sé ekki að mæla með að þetta haldi áfram að vera svona heldur að segja að það hefði verið of mikið verk fyrir okkur að þessu sinni að líta á þetta og það er eðlilegt að umhverfisráðherra beiti sér fyrir breytingum í þessu efni.

Helstu breytingar sem nefndin leggur til eru, eins og nefnt er, að hin nýja stofnun verði nefnd Mannvirkjastofnun og það eru líka breytingartillögur á ýmsum hugtakaskýringum á sínum stað í frumvarpinu. Einna umfangsmest er kannski sú að við leggjum til að sá sem í frumvarpinu er nefndur samræmingaraðili og jafngildir byggingarstjóra við hönnun verksins — að það nafn verði ekki samþykkt heldur verði hann kallaður hönnunarstjóri þannig að hinir jafnsettu menn í þessu séu annars vegar hönnunarstjóri og hins vegar byggingarstjóri. Nokkur önnur hugtök eru skýrð með öðrum hætti og einu sleppt eins og sjá má í nefndaráliti og breytingartillögum.

Þá er að geta þess að um menntun og reynslu forstjóra Mannvirkjastofnunar í 6. gr. frumvarpsins leggur nefndin til að orðalag verði hliðstætt ákvæðum um forstjóra Skipulagsstofnunar í nýju lögunum. Þetta er ekki mikil efnisbreyting en við teljum þó að á sama hátt og nokkurt svigrúm er gefið um fagsvið og menntun forstjóra Skipulagsstofnunar sé eðlilegt að eins verði með forstjóra Mannvirkjastofnunar.

Nefndin leggur líka til breytingar á 6. gr. og 8. gr. þess efnis, og það er kannski meiri efnisbreyting, að starfsmönnum Mannvirkjastofnunar verði óheimilt að starfa við hönnun mannvirkja og jafnframt að byggingarfulltrúa sé undantekningarlaust óheimilt að sinna starfi sem gæti komið til afgreiðslu í umdæmi hans. Nefndin bendir á að í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem eiga við starfsfólk nýju stofnunarinnar er að finna sambærilegt ákvæði.

Nefndin ræddi skipulagsmörk sveitarfélaga í tengslum við hin nýsettu skipulagslög. Skipulagsafstaða til hafsins miðast við sveitarfélagsmörk sem aftur miðast við netlög og nefndin leggur til að 9. gr. frumvarps til mannvirkjalaga verði breytt til samræmis við skipulagslögin þannig að séu mannvirki á hafi eigi fjær ytri mörkum netlaga en eina sjómílu, skuli Mannvirkjastofnun leita umsagnar næsta sveitarfélags, eins eða fleiri eftir atvikum, þau geta þannig lagað legið jafnnærri, við umfjöllun um byggingarleyfisumsókn.

Nefndin ræddi líka gildistíma og ábyrgðartryggingu þeirra aðila sem bera ábyrgð við byggingu mannvirkja og í 23. gr. frumvarpsins er kveðið á um skyldu hönnuða til að hafa ábyrgðartryggingu en ekki áskilið að slík trygging skuli gilda í tiltekinn tíma frá verklokum. Nefndin telur mikilvægt að slíkar reglur verði settar en telur reglugerð henta betur til þess en lögin sjálf, þannig að minnst sé á nokkrar athugasemdir sem fram komu í umsögnunum.

Í VIII. kafla frumvarpsins, um eftirlit með mannvirkjagerð, er m.a. kveðið á um úttektir sem gera skal á mannvirkjum. Nefndinni voru kynnt sjónarmið um að mikilvægt væri að lögbinda fokheldisúttekt, sem lengi hefur verið einn helsti áfangi við byggingar á Íslandi, enda fæli fokheldisvottorð einhvers konar í sér skýra stöðu um lánshæfi byggingar. Brunatryggingar sé fyrst krafist við fokheldisstig og álagning fasteignagjalda miðuð við fokheldisstig.

Nefndin telur þrátt fyrir þessi rök óþarft að lögbinda einhvers konar fokheldisúttekt enda á slík úttekt misvel við margvísleg mannvirki og ekki er rétt að beina mönnum endilega í þá átt að einhvers konar fokheldisáfangi skapi nauðsynleg tímamót í byggingum. Nefndin bendir líka á að þótt ekki sé kveðið á um fokheldisúttekt í lögunum er ekkert því til fyrirstöðu að það sé gert í byggingarreglugerð þar sem þörf er talin á og þá einungis þar sem þörf er talin á.

Þá er að segja frá því að samkomulag varð í nefndinni um það, bæði hvað varðar þetta frumvarp og brunavarnafrumvarpið, að við mundum að vísu taka afstöðu í einum þremur álitamálum, sem við höfðum varla tíma til fyrir gerð nefndarálits til 2. umr. að fjalla nægilega djúpt um, en mundum geyma okkur frekari umfjöllun til tímans eftir 2. umr. og þá fyrir 3. umr. Önnur umræða frestaðist nokkuð frá því sem fyrirhugað var og við höfðum því hafið þessa umfjöllun okkar en gerðum grein fyrir niðurstöðum hennar við 3. umr. sem m.a. veldur því að ég kýs að gera ekki að sérstöku umræðuefni það álitamál sem einkum varðar mannvirkjafrumvarpið, sem er það hvar opinberu markaðseftirliti með rafföngum er best fyrir komið, hvort það á að vera eins og nú er að Brunamálastofnun sé að helmingi til, eða Mannvirkjastofnun þá í framtíðinni, með slíkt markaðseftirlit og Neytendastofa að helmingi til, eða hvort þetta á allt að færast til Mannvirkjastofnunar því að hitt er varla gerlegt. Um þetta erum við að fjalla og getum ekki sagt neinar sérstakar fréttir af því enn þá en sem betur fer eru þrjár umræður um hvert frumvarp á þinginu og menn geta þá einbeitt sér að þessu máli í 3. umr. um mannvirkjalagafrumvarpið. Við hyggjumst því kalla aftur breytingartillögur okkar í þessu efni, sem er liður 56 í breytingartillögunum, þegar kemur að atkvæðagreiðslu um mannvirkjalagafrumvarpið.

Ég hef farið nokkuð fljótt yfir sögu en bendi hv. þingmönnum á að nefndarálitið liggur frammi eins og það er og breytingartillögurnar líka. Það þarf þó að gera grein fyrir því að við gerum sérstakar tillögur um breytingar á skipulagslögum og það er aðallega vegna þess að í ljós komu nokkrir lagatæknilegir hnökrar á þeim þegar frumvarpið var unnið í september og var gert knálega en sem betur fer hefur það ekki tekið gildi þannig að hægt er að breyta því án þess að neitt rugl verði á.

Þetta eru, hygg ég, fjórar breytingar. Fyrsta breytingin varðar nafn hinnar nýju stofnunar, sem einu sinni kemur fyrir í skipulagslögunum, og yrði þá Mannvirkjastofnun. Önnur breytingartillagan er hugsuð til að auðvelda smávægilegar breytingar á svæðisskipulagi miðhálendisins til samræmis við aðalskipulag sveitarfélaga frá gildistöku laganna til fyrstu þingsályktunar um landskipulagsstefnu árið 2012. Hin þriðja er borin fram vegna þess að lagagreinar voru ekki samhljóða og er um staðfestingu umhverfisráðherra á svæðisskipulagi eins og menn sjá í breytingartillögunum. Síðan leggjum við til að það verði fastsett í lögunum hvernig lagaskilum verður háttað þannig að um það verði engar deilur og þá er miðað við að öll þau mál sem nú eru komin til Skipulagsstofnunar eða ráðuneytisins til skoðunar eða staðfestingar fari að gömlum lögum þannig að ekki þurfi að senda þau aftur í nýtt ferli samkvæmt nýjum lögum. Það má deila um það hvort þessi breyting sé þörf en það er öruggara að hafa þetta svona þannig að engin vandræði skapist af.

Nefndin öll ber þetta fram, tveir nefndarmanna, Birgir Ármannsson og Vigdís Hauksdóttir, með fyrirvara. Aðrir eru Mörður Árnason, Ólína Þorvarðardóttir, Álfheiður Ingadóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Skúli Helgason og Birgitta Jónsdóttir en Kristján Þór Júlíusson var fjarverandi vegna anna við fjárlagagerð við afgreiðslu málsins.

Ég vil segja frá því að þessari yfirferð lokinni að við rannsökuðum sérstaklega athugasemd frá Samorku sem varðaði það að hætt væri við því að þegar virkjanir væru með þessu frumvarpi, ef að lögum verður, orðnar byggingarleyfisskyldar yrði reynt að gera þær að andlagi fasteignagjalda. Þessi athugasemd er þess eðlis að okkur þótti rétt að athuga hana en þykjumst vera búin að ganga úr skugga um að þetta séu óþarfar áhyggjur. Virkjanir eru ekki undanþegnar fasteignaskatti vegna þess að þær hafi ekki byggingarleyfi eins og nú er háttað heldur vegna þess að um þær gildir liður 3 og 4 í 26. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001, það er í V. kafla um fasteignamat og framkvæmd þess. Það er að vísu nokkuð fornlegt orðalag þykir okkur í upphafi 21. aldar en þar eru í 3. og 4. lið eftirtaldar eignir undanþegnar fasteignamati, sem er forsenda þess að lagt sé á fasteignagjald: Rafveitur, þar á meðal línur til flutnings raforku ásamt burðarstofnunum og spennistöðvum, og vatnsveitur, þar á meðal brunnar, geymar og dælubúnaður.

Þetta orðalag á kannski illa við Kárahnjúkavirkjun og Hellisheiðarvirkjun en samt eru það þessir liðir sem eru lagastoðin fyrir því að virkjanir séu undanþegnar fasteignaskatti og yrðu það áfram þannig að það kemur ekki við þeim lögum sem við nú erum að breyta eða samþykkja heldur lögunum um skráningu og mat fasteigna og fyrr en þeim verður breytt helst þetta stand.

Ég vil nota tækifærið núna, þó að það ætti kannski frekar að gera það við seinna frumvarpið, og segja: Þó að við séum í miðju kafi við þetta verk þá vil ég samt þakka mjög gott samstarf í nefndinni. Menn hafa staðið við það fyrirheit frá því í september að einhenda sér í þessi mál og auka þar með, að ég tel, virðingu og heiður þingsins og vinna landi og þjóð gagn eins og við eigum að vera að gera. En lokaþakkir mínar vil ég þó hinkra með þangað til reynir á nefndarmenn fyrir 3. umr.