139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

mannvirki.

78. mál
[16:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það var út af fyrir sig skynsamlegt hjá hv. formanni umhverfisnefndar að hafa þann fyrirvara á þökkum sínum að umfjöllun um málið sé ekki lokið. Ég tek hins vegar undir það með honum að þetta mál var tekið til mjög gagngerðrar skoðunar í umhverfisnefnd bæði í sumar og eins í haust og margir þættir þess hafa fengið mjög ítarlega skoðun og er það líklega lokaáfangi í talsvert löngu ferli, eins og gerð var grein fyrir við 1. umr., vegna þess að lagasetning um skipulags- og byggingarmál hefur verið í bígerð árum saman. Nú sér fyrir endann á ákveðnum áfanga í þeim efnum og er það gott. Hins vegar er það svo, eins og hv. formaður umhverfisnefndar gerði grein fyrir áðan, að ákveðnir þættir málsins eiga enn eftir að fá frekari skoðun í umhverfisnefnd áður en til 3. umr. kemur. Ætla ég, eins og hv. formaður umhverfisnefndar, ekki að fara nákvæmlega út í þá þætti þó að ég nefni aðeins eitt, tvö eða kannski þrjú atriði í því sambandi á eftir án þess að fara út í nákvæman rökstuðning fyrir málinu.

Þarna er um viðamikinn lagabálk að ræða og breytingartillögur umhverfisnefndar, sem voru afgreiddar í ágætri sátt, eru 15 blaðsíður í þingskjölum þannig að þarna er um að ræða mjög viðamiklar breytingar á löngu frumvarpi. Væri hægt að hafa langt mál um suma þessara þátta en hins vegar er rétt að geta þess að afar mörg atriði sem varða mannvirkjalögin eða væntanleg mannvirkjalög eru fyrst og fremst tæknileg útfærsluatriði og í sjálfu sér ekki pólitísk álitamál eða ágreiningsmál. Það heyrir tiltölulega til undantekninga ef um slík atriði er að ræða. Í aðdraganda málsins hefur töluverð vinna verið unnin við að leysa úr og reyna að sætta mismunandi sjónarmið í þeim efnum, bæði á vinnslustigi í ráðuneyti og eins í umhverfisnefnd, þó að vissulega séu ákveðin álitaefni sem ekki hefur verið skorið úr um enn þá en mun að öllum líkindum koma í hlut okkar þingmanna að taka afstöðu til áður en þessari umfjöllun er lokið.

Það var svo við afgreiðslu málsins í hv. umhverfisnefnd að ég ritaði undir nefndarálit með fyrirvara og vildi kannski skýra það með örfáum orðum hvers vegna ég geri það. Ég tek það fram eins og ég gerði áðan að ég er í meginatriðum sáttur við nefndarálitið og þær breytingartillögur sem lagðar eru til og stend að þeim eins og aðrir nefndarmenn, en hins vegar eru ákveðnir þættir varðandi þetta mál sem ég set enn þá almennan fyrirvara við. Þar stendur kannski helst í mér enn sá kostnaður sem fylgja mun uppbyggingu Mannvirkjastofnunar, sem væntanlega mun hljóta það nafn eða Byggingarstofnunar eins og hún er stundum nefnd, þessarar væntanlegu stofnunar sem mun hafa með yfirumsjón að gera í sambandi við byggingarmálin eða mannvirkjamálin. Það hefur út af fyrir sig ekki breyst í meðförum nefndarinnar að enn er gert ráð fyrir því að tilkoma þeirrar stofnunar sem leiðir af samþykkt þessa frumvarps mun leiða til 100 millj. kr. útgjaldaauka fyrir ríkissjóð samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins. Þetta nefndi ég í 1. umr. og ég játa það að þetta atriði þvælist enn þá fyrir mér.

Nú er það svo að 100 millj. kr. geta verið bæði lítill peningur og mikill peningur eftir því hvernig á málið er litið og í samhengi ríkisfjármálanna er auðvitað ekki um að ræða mjög háa fjárhæð, sérstaklega ekki þegar horft er til ýmissa annarra ákvarðana sem verið er að taka á hinu háa Alþingi. Engu að síður er þarna um að ræða 100 millj. kr. til nýrrar eða alla vega verulega breyttrar stofnunar á tímum þar sem við þurfum að ganga mjög hart fram í að skera niður kostnað hjá ýmsum öðrum stofnunum sem gegna ekki veigaminna hlutverki en þessi nýja stofnun. Ætla ég þó ekki að gera lítið úr hlutverki hennar eða verkefnum hennar en þarna er samt sem áður um að ræða aukin útgjöld til nýrra verkefna á sama tíma og blóðugur niðurskurður fer fram sums staðar annars staðar og ekki í ómerkari stofnunum en þarna er um að ræða. Þetta er enn í mínum huga töluvert umhugsunaratriði og áhyggjuefni í samhengi ríkisfjármálanna.

Annað atriði sem ég vildi nefna sem auðvitað átti þátt í því að ég undirritaði nefndarálitið með fyrirvara var það að ég ásamt reyndar öðrum nefndarmönnum taldi mikilvægt að tiltekin álitamál fengju nánari meðferð milli 2. og 3. umr. Um það er gott samkomulag og það má segja að umhverfisnefnd hafi aðeins verið að vinna í haginn í þeim efnum, þó að 2. umr. fari fyrst fram í dag. Ákveðin álitaefni hafa verið rædd milli funda ef svo má segja og nefndin hefur nýtt tímann ágætlega í þeim efnum. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í það en formaður vék auðvitað að álitaefninu varðandi það hvar markaðseftirlit með tilteknum vöruflokkum rafmagnsvara ætti heima. Þarna er um að ræða ákveðna verkaskiptingu eða spurningu um ákveðna verkaskiptingu milli núverandi Brunamálastofnunar, sem verður við breytinguna Mannvirkjastofnun, annars vegar og Neytendastofu hins vegar. Í nefndaráliti okkar frá því fyrir tveimur vikum gerum við ráð fyrir því að verkefnið í heild flytjist til Mannvirkjastofnunar og það mun væntanlega koma frekari umfjöllun um þetta atriði í 3. umr. þannig að ég ætla ekki að fjalla nánar um það. Hins vegar hefur umhverfisnefnd hlýtt á sjónarmið þeirra stofnana sem í hlut eiga í þessu efni og heyrt í rauninni bæði rök með og á móti þessari breytingu þannig að þegar við komum til 3. umr. verður umhverfisnefnd töluvert betur í stakk búin til þess að fjalla um og rökstyðja niðurstöðu varðandi þetta álitamál. En þarna er auðvitað um að ræða ákveðna togstreitu milli stofnana, jafnvel milli ráðuneyta vil ég leyfa mér að segja eins og við sjáum dæmi um víðar. Frá sjónarhóli þingmanns er í sjálfu sér um að ræða um ákveðna framkvæmdaþætti sem við sem þingmenn viljum að séu í góðu lagi og höfum kannski ekki endilega heitar meiningar um hvar eigi að vera vistaðir, en í þessu tilviki höfum við það verkefni að taka af skarið í ákveðnu álitaefni og getum auðvitað ekki vikist undan því þegar það kemur til okkar kasta. Sama á auðvitað við um ákveðin álitamál sem munu koma til umræðu eða geta komið til umræðu varðandi frumvarp til laga um brunavarnir sem verður til umræðu á eftir. Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta.

Hv. formaður umhverfisnefndar nefndi eitt atriði sem vakti náttúrlega spurningar og það var um breytinguna sem varðar byggingarleyfi fyrir virkjanir. Vonandi eru komnar fram skýringar sem duga í þeim efnum. Þarna er verið að tala um byggingarleyfi vegna mannvirkja sem tengjast virkjunum og þrátt fyrir að slík mannvirki séu tekin þarna inn í er hugmyndin ekki sú að þarna verði um að ræða nýja álagningu fasteignagjalda eins og kom fram í máli hv. formanns. Það er mikilvægt að halda því til haga. Ég held að það megi alveg líta svo á að komi einhvern tíma til þess að fasteignagjöld verði lögð á í tilvikum af þessu tagi verður það alveg örugglega sjálfstæð ákvörðun sem mun með einhverjum hætti koma til kasta Alþingis. Það er ekki um það að ræða í þessu sambandi.

Ég ætla að nefna eitt atriði sem ég hugsaði svolítið um meðan við vorum með þetta mál til umfjöllunar í nefndinni en ég er ekki með breytingartillögu um en tel enn þá umhugsunarefni. Það varðar ábyrgð eigenda og ábyrgðarröð og slíka þætti. Frumvarpið gerir ráð fyrir að eigendaábyrgð á mannvirkjum sé afar víðtæk, m.a. meðan bygging er á byggingarstigi, og nú kann að vera sjónarmið að þeir sérfróðu aðilar eða fagmenn sem taka að sér tiltekna verkþætti í sambandi við byggingar eigi að bera ábyrgð á sínum verkum og að þeir sem hugsanlega verða fyrir einhverju tjóni eigi ekki að þurfa að fara í eigandann heldur geti farið beint og sótt bætur til þeirra sem bera ábyrgð á tilteknum þáttum. Þarna er um að ræða spurningu um hvort verið sé að setja inn óþarflega flókna uppsetningu á ábyrgðarröðinni og ég vil halda því opnu að skoða þetta mál betur þó að ég sé eins og ég sagði áðan ekki með breytingartillögu á þessu stigi.

Vissulega er það svo að verði eigandi dæmdur ábyrgur fyrir einhverju tjóni vegna mistaka eða vanrækslu sem rekja má til þeirra fagmanna eða fyrirtækja sem vinna verk fyrir hann þá á hann auðvitað endurkröfu á hendur þeim og þeir eru væntanlega tryggðir og þess háttar, en það er svona spurning hvort þarna sé verið að lengja í ferlinu í framkvæmd. Ég tek fram að ég hef ekki tekið endanlega afstöðu til þess hvort ég vil leggja fram einhverjar breytingar í þessu sambandi en þetta finnst mér enn nokkurt umhugsunarefni.

Önnur atriði ætla ég ekki að nefna í þessari umræðu, ég tel að þau komi til skoðunar þegar málið kemur til 3. umr. og álitamál sem við höfum vikið að hafa verið rædd betur í nefndinni. Ég tek undir með hv. formanni umhverfisnefndar að það var samstaða um það í nefndinni að fara ekki út í það að höggva á ákveðna hnúta sem virðast vera í sambandi við menntunarmál stétta eða starfsreynslumál stétta sem snerta síðan aftur heimildir til starfa eða ákveðinna verkefna. Við erum ekki að fara inn í þá umræðu þó að mjög margir faghópar og stéttarfélög hafi greinilega mikinn áhuga á að fá fram einhverjar breytingar í því sambandi. Við förum ekki út í það og ég tek undir með hv. formanni umhverfisnefndar að það er þá verkefni sem þarf að ráðast í síðar og er hægt að líta á sem sjálfstætt viðfangsefni sem ekki þarf að hanga saman við afgreiðslu þess máls sem hér er til umræðu.

Það er samt eitt atriði sem rétt er að geta um en með sama hætti hef ég ekki séð tilefni til að gera neinar breytingartillögur í því sambandi. Það er umhugsunarefni sem leitaði á mig kannski fyrst og fremst eftir að við höfðum afgreitt út nefndarálitið og það varðar það að við í umhverfisnefnd erum auðvitað að hengja breytingar á öðrum lagabálkum við þetta frumvarp. Það varðar skipulagslögin, það varðar lögin um rafmagnsöryggismál og það er alltaf álitamál að hve miklu leyti þingnefndir eiga að fara út í það að gera breytingartillögur við önnur lög en þau sem beinlínis er verið að fjalla um í því frumvarpi sem er til umfjöllunar hverju sinni. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að stíga varlega til jarðar í þeim efnum. Mér finnst hins vegar ekki tilefni til þess á því stigi sem málið er nú í umfjöllun okkar í þinginu að gera neina breytingu í þessum efnum. Við vissum af þessu þegar við gengum út í þetta þó að áhyggjur mínar af þessu formsatriði hafi kannski aukist eftir að við höfðum skilað þessu af okkur. Ég er því ekki með breytingartillögu í þessum efnum. Hins vegar er ástæða fyrir þingnefndir almennt að sýna varkárni í sambandi við hvaða lagabreytingar aðrar þær gera tillögur um við afgreiðslu frumvarpa úr nefndum vegna þess að sum mál, jafnvel þó að einhver tengsl kunni að vera milli málanna, eru einfaldlega þannig að þau þarf að skoða sérstaklega frá upphafi. Það getur verið varasamt, og þá er ég ekki endilega að hugsa um það sem er að gerast í þessu máli heldur kannski hluti sem maður hefur séð gerast í öðrum frumvörpum eða í meðferð annarra frumvarpa, þegar raunverulegar breytingar, jafnvel róttækar efnisbreytingar, hafa komið inn í umfjöllun um mál á síðustu stigum þess, á síðustu stigum umfjöllunar í þinginu, og þar með ekki fengið eðlilega málsmeðferð frá upphafi til enda með þremur umræðum o.s.frv. sem þingsköp almennt gera ráð fyrir. Ég held að í þessu tilviki sé engin ástæða fyrir okkur til að hafa áhyggjur af þessum þætti einfaldlega út af efni þeirra breytinga sem verið er að leggja til. Hins vegar vildi ég vekja athygli á þessu sjónarmiði við umræðuna til að árétta þá afstöðu mína að þingnefndir almennt verði að gæta sín í þessum efnum vegna þess að við vitum að af hálfu framkvæmdarvaldsins, af hálfu ráðuneyta er mjög oft tilhneiging til að nýta ferðina eins og oft er sagt, til að koma málum einhverja léttari leið í gegnum þingið með því að skella þeim inn sem breytingartillögum við þingmál á síðari stigum. En þingmenn verða auðvitað að hafa í huga að þingsköpin gera ráð fyrir tilteknum málsmeðferðarreglum til að tryggja að málin fái vandaða umfjöllun frá upphafi til enda með þremur umræðum og nefndarstörfum á milli eftir því sem tilefni er til og frávik frá þeirri reglu eru alltaf varasöm. Menn eiga einfaldlega að fara gætilega í þeim efnum.