139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta en verð þó að leiðrétta hann. Í gr. 9.2.3–9.2.38 í 14. viðauka við Chicago-samninginn er ekki kveðið á um að flugvellir þurfi sjálfir að hafa slökkvilið heldur er kveðið á um mismunandi búnað og mismunandi viðbúnað á tilteknum gerðum af flugvöllum. Á þeim forsendum er sett reglugerð nr. 464/2007 í samgönguráðuneytinu sem nú er til endurskoðunar frá lokum 2009, vegna samráðs sem hv. þingmanni er af tilviljun kunnugt um. Þeirri endurskoðun er því miður ekki lokið og enginn hefur séð þessa nýju reglugerð eða tillögu Flugmálastjórnar um hana því hún er núna stödd í samgönguráðuneytinu, hefur verið þar frá því í júlí í sumar.

Við erum eins og ég segi að grafa okkur niður í þetta. Eins og heyra má erum við komin a.m.k. eitthvað undir yfirborðið. Á þessu stigi sé ég þetta þannig, og áskil mér rétt til að skipta um skoðun og bæta við þekkingu mína þangað til 3. umr. hefst, að samkvæmt alþjóðasamningnum sem ég hef nokkrum sinnum nefnt á Flugmálastjórn að sjá um að tiltekinn lágmarksviðbúnaður sé til staðar á flugvöllum, miðað við þær gerðir af flugvöllum sem tilteknar eru í Chicago-samningnum. Það losar ekki flugvellina eða starfsemina þar undan íslenskum lögum og reglum um eldvarnir. Vel má gera sér grein fyrir þessu með því að ímynda sér önnur lönd eða ríki sem falla undir Chicago-samninginn en þau eru u.þ.b. 200 og eitthvað. Sömu reglur gilda á Fílabeinsströndinni, í Kólumbíu eða í Barein og Nepal og gilda hér en kröfurnar innan lands kunna hins vegar að vera aðrar á Fílabeinsströndinni en á Íslandi.