139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[17:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er með þetta mál eins og það sem við ræddum síðast. Það hefur verið ágæt samstaða um meginganginn í meðferð þess í hv. umhverfisnefnd þó frumvarpið hafi ekki fengið jafnmikla umfjöllun og mannvirkjafrumvarpið, sem reyndar er töluvert meira að vöxtum. Ég undirrita þetta með fyrirvara sem lýtur að því að það voru ákveðin álitaefni sem nauðsynlegt var að ræða nánar fyrir lokaumfjöllun um málið í þinginu. Það er góð sátt um að það verði gert. Umfjöllunin er raunar hafin í nefndinni eins og fram hefur komið. Nefndin hefur þegar fengið á sinn fund ýmsa aðila sem hafa athugasemdir við útfærsluna sem lagt er upp með að lokinni umfjöllun milli 1. og 2. umr. Ég þykist vita að áður en 3. umr. hefst verði línur orðnar talsvert skýrari.

Álitamálin sem upp hafa komið eru, eins og hv. formaður umhverfisnefndar vék að, m.a. verkaskipting einstakra aðila á vettvangi, fyrst og fremst verkaskipting milli lögreglu eða lögreglustjóra og slökkviliðs eða slökkviliðsstjóra. Þar er enn fyrir hendi ákveðin togstreita sem túlka má með mismunandi hætti. Það er þörf á að taka einhvern veginn á því áður en umfjöllun um málið lýkur.

Síðan er flugvallarmálið sem vikið hefur verið að sem er gömul deila í kerfinu eins og fram hefur komið. Þar hefur verið ákveðin togstreita fyrir hendi milli flugmálayfirvalda annars vegar og yfirmanna brunamála og slökkviliðs hins vegar og eftir atvikum milli ráðuneyta eins og þegar hefur komið fram í umræðunni. Við í umhverfisnefnd erum í því verkefni núna að kalla fram mismunandi sjónarmið um þetta. Við þurfum að hafa í huga í því sambandi ákveðin sjónarmið. Í fyrsta lagi þurfum við að hafa öryggissjónarmið í heiðri. Í annan stað þurfum við að hafa hagkvæmnissjónarmið í heiðri. Auk þess þurfum við að gæta þess að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar og sinna verkefnum sem við höfum undirgengist á alþjóðavettvangi að þessu leyti.

Við þurfum bæði að tryggja öryggi og tryggja að framkvæmdin sé með hagkvæmum og skynsamlegum hætti. Þar sem árekstrar kunna að vera milli þessara sjónarmiða þurfum við að finna hæfilegt jafnvægi. Það er verkefnið eins og ég sé það fyrir mér. Það hefur verið gagnlegt að hlusta á mismunandi sjónarmið í þessum efnum og mikilvægt að við erum í því verkefni núna.

Þetta eru helstu álitaefnin sem standa út af hjá okkur eins og sakir standa. Ég held að það sé rétt að við hlustum áfram á sjónarmið í þessum efnum áður en við ljúkum umfjölluninni. Ég ætla ekkert að fara nánar út í þetta á þessu stigi. Ég þykist vita að hér séu aðrir menn betur til þess fallnir en ég að fara ofan í einstaka þætti í þessu sambandi. Hins vegar hef ég og aðrir nefndarmenn í umhverfisnefnd haft töluvert gagn af því að kynnast sjónarmiðum í deilunni sem við höfum vitað af í nokkurn tíma. Við höfum þekkt sjónarmið í þessum efnum.

Ég segi fyrir sjálfan mig að mér finnst svolítið sérstakt að framkvæmdarvaldið hafi ekki mótað sér skýra stefnu í þessum efnum enn þá. Auðvitað eru ákveðnir þættir sem við sem löggjafi þurfum að taka afstöðu til og klára. Hins vegar er í þessum málum bæði varðandi yfirstjórn á vettvangi eldsvoða, vald og ábyrgð lögreglustjóra annars vegar og slökkviliðsstjóra hins vegar og síðan það sem snýr að flugvallarmálunum. Þetta eru atriði sem varða ekki neina meginstefnumörkun eða neitt svoleiðis. Þetta er spurningin um það hvernig mismunandi opinberar stofnanir leysa úr hlutverki sínu. Það er vandamál að opinberar stofnanir og ráðuneytin sem yfir þeim eru skuli ekki hafa reynst þess megnug að finna einhverja málamiðlun eða eina línu sem samkomulag er um í þessum efnum. Í svona tilvikum þarf á endanum að höggva á hnúta, það er verkefni okkar í þinginu eins og mál eru vaxin. Í þessum efnum þarf að huga að því að það þarf að vera samræmi milli fleiri en eins lagabálks og reglna sem settar eru á sviðum mismunandi ráðuneyta. Til þess að vel sé að verki staðið í þeim efnum þurfa ráðuneyti og stofnanir að geta talað saman og komið sér saman um niðurstöðu og skynsamlega framkvæmd. Ég held að það hefði mátt komast fram hjá ýmsum álitaefnum sem ratað hafa í umfjöllun þingsins ef um árangursríkari samtöl og samráð milli einstakra stofnana í kerfinu hefði verið að ræða. En stundum hlaupa hlutirnir í hnút og þá þarf að höggva á hnútana með einhverjum hætti. Eða kannski leysa úr hnútunum, það er líka hægt. Það er verkefnið og við hljótum að leysa það eftir bestu samvisku.

Ég held að hv. þingmenn verði að vera sammála um að svona atriði sem varða framkvæmdaþætti hvernig einstakar stofnanir sinna, hvað eigum við að segja, lögboðnu hlutverki sínu, á ekki endilega að vera verkefni löggjafans ef við horfum á hin smæstu atriði í því sambandi. Að einhverju leyti verðum við að geta treyst því að stjórnkerfið eða framkvæmdarvaldið geti framfylgt þeim markmiðum sem við setjum hér með lögum án þess að upp komi einhver vandamál sem lenda inni á okkar borði.

Að svo stöddu ætla ég ekki að fara nánar út í þessi ágreiningsmál. Við hljótum að klára þetta í nefndinni áður en 3. umr. hefst. Þá verða línur væntanlega orðnar skýrari sem við getum rökrætt við 3. umr. Ég held að við höfum náð þeim árangri að vera betur meðvituð um álitamálin, rök með eða á móti, alla vega við sem í umhverfisnefnd sitjum. Við erum betur í stakk búin til þess að komast að rökstuddri niðurstöðu hvort sem um samhljóða niðurstöðu verður að ræða eða mismunandi niðurstöðu einstakra nefndarmanna.