139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[17:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er með þetta mál eins og málið hér á undan, nú ræðum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um brunavarnir, að flest það sem ég ætlaði að segja hefur komið fram. Það er óþarft að endurtaka það í meginatriðum, hv. þingmenn sem töluðu á undan mér, Birgir Ármannsson og Mörður Árnason, hafa raunverulega farið yfir þessi ágreiningsefni.

Ég vil taka það samt fram í upphafi, því að þingmenn voru hvattir í dag til að vera jákvæðir og standa sólarmegin í þingsalnum en ekki vera neikvæðir, að vinnan við frumvarpið hefur gengið mjög vel. Oftast gengur starfið í nefndunum hnökralaust fyrir sig og má segja að nefndarmenn allir séu samstiga í flestum málum. Þó að áherslubreytingar séu einhverjar á milli þingmanna næst þar oft góð samvinna. Þetta frumvarp er samhangandi því frumvarpi sem var til umræðu áðan þannig að þetta er beint framhald af því. Eins og farið hefur verið yfir eru tvö aðalágreiningsefni í þessu frumvarpi, annað varðandi það hver á að hafa yfirstjórn á vettvangi þegar um það er að ræða að fólk er fastklemmt í mannvirkjum eða farartækjum, þá hvort lögreglan eigi að hafa þar yfirstjórn eða sérhæft björgunarlið sem kemur fyrst á svæðið. Í þessu frumvarpi er ítarlega greint frá því hvaða reynslu, þekkingu og menntun slökkviliðsmenn hafa sem hafa gengið í gegnum sérstakar æfingar varðandi fastklemmt fólk.

Svo er hitt atriðið sem snýr að slökkvistarfi á flugvöllum. Hv. þm. Kristján Möller, sem er fyrrverandi hæstv. samgönguráðherra, kom í andsvar við flokksbróður sinn og gerði athugasemdir við það að samkvæmt málinu eins og það stendur núna vill umhverfisnefnd ganga lengra en fyrrverandi samgönguráðherra og virkja slökkviliðin sem eru í kringum þá flugvelli sem hér starfa. Með þessu viljum við náttúrlega fyrst og fremst tryggja líf og limi þeirra sem í loftfarinu eru og svo ekki síður að tryggja öryggi þeirra sem slökkvistarfi sinna samkvæmt alþjóðasamningum sem hv. formaður umhverfisnefndar fór hér yfir. Við erum aðilar að alþjóðlegum sáttmálum að þessu leyti og ber þar hæst Chicago-sáttmálann.

Þar sem umhverfisnefnd var með fund í morgun og fékk til sín gesti held ég að ég sé ekki að brjóta neinn trúnað með það að flestir sem að þessu máli koma eru að bíða eftir reglugerð úr ráðuneytinu. Spurðist ég sérstaklega fyrir um þessa reglugerðarsmíð því að á meðan ekki eru komnar leiðbeiningar eða lög frá Alþingi er þessi togstreita áfram til staðar og sitt sýnist hverjum. Það er að frétta að ráðuneytið átti að skila af sér reglugerð um þetta málefni 1. júní í sumar og hefur ekki enn gert það. Svo kom jafnframt fram að Evrópusambandið er að huga að reglugerðarsmíð um sama efni sem á að taka gildi 2013. Óskaði ég eftir því á milli umræðna. Ég tek það fram hér að það er með þetta frumvarp eins og frumvarpið sem var til umræðu áðan, það á að fara í umhverfisnefnd milli 2. og 3. umr.

Ég óskaði eftir því að umhverfisnefnd fengi í megindráttum þá hugsun sem fælist í eldvörnum á flugvöllum sem Evrópusambandið er byrjað að semja þannig að við gætum þá verið hér með einhvern vísi að framsýnni löggjöf. Eins og hefur komið fram viljum við ganga skrefinu lengra til að tryggja hér öryggi þeirra sem ferðast þurfa með loftförum.

Ég sé að hv. þm. Kristján Möller er á mælendaskrá á eftir mér. Það væri gaman að heyra frá honum beint hvaða augum hann lítur þessa reglugerðarsmíð því að eins og flestir vita er hann sá sem sat síðast sem samgönguráðherra á undan núverandi hæstv. ráðherra Ögmundi Jónassyni sem tók við stjórnartaumunum í samgönguráðuneytinu þegar það var sameinað dómsmálaráðuneytinu.

Um þetta er svo sem ekki meira að segja í þessari umferð, virðulegi forseti. Hér liggja fyrir breytingartillögur sem eru lagðar fram í meðförum málsins í umhverfisnefnd. Ég er á þessu nefndaráliti með fyrirvara sem er góð vinnuregla þegar málin koma inn aftur á milli umræðna til að þá hafi maður áhrif til þess að gera breytingar og með því tryggja jafnframt að á ákveðin sjónarmið sé hlustað.

Frumvarpið kemur aftur inn í umhverfisnefnd. Eflaust eigum við eftir að fá til okkar fleiri gesti. Meginlínurnar varðandi þau tvö deilumál sem í frumvarpinu felast liggja nokkuð skýrar fyrir vegna þeirra sjónarmiða sem komið hafa fram í umhverfisnefnd, en við munum að sjálfsögðu skoða þetta mjög vel. Ég vona að formaður umhverfisnefndar dragi ekki í land með það sem í frumvarpinu stendur og út á hvað það gengur vegna þess að það er mjög framsýnt að mínu viti og sýnir að við erum raunverulega að stíga jafnvel skrefinu lengra en — við sækjum þetta náttúrlega til Norðurlandanna eins og aðra löggjöf, en við erum að ná því að verða jafnfætis þeim varðandi brunavarnir, þá sérstaklega brunavarnir á flugvöllum.

Ég læt þetta vera lokaorð mín að sinni, svo að sjálfsögðu tek ég til máls þegar málið kemur til 3. umr. og lokaafgreiðslu.