139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[17:21]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir það fyrsta vil ég segja að það sem komið hefur fram við þessa umræðu, bæði frá hv. þm. Merði Árnasyni og Birgi Ármannssyni sem komu hérna áðan og reyndar þeim þriðja, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, um þetta og það vinnulag sem á að vera á þessu atriði sem ég gerði hér að umræðuefni í stuttu andsvari áðan, þ.e. um valdsviðið gagnvart fyrstu viðbrögðum ef flugslys verður á flugvelli, er ég sáttur við að þetta verði tekið til baka þegar við göngum til atkvæða um þetta stóra og mikla frumvarp væntanlega á morgun. Breytingartillögurnar sem um þetta fjalla verða teknar til baka til nefndarinnar til að ræða það milli 2. og 3. umr. og nefndin fer svo betur í gegnum það og skilar inn tillögum hvað þetta varðar við 3. umr. Ég óska hv. þm. Merði Árnasyni líka til hamingju með hina miklu umræðu, svo og nefndinni allri, og vinnu við þessi tvö frumvörp. Ég sé að þarna hefur verið staðið vel að verki. Hér er margt sett fram og margar breytingartillögur gerðar og unnin góð vinna. Við munum kappkosta að hafa klár valdmörk milli Brunamálastofnunar og svo flugvallarfélagsins Isavia hvað þetta varðar því að lagaleg óvissa um túlkun í lögum á ekki að vera í boði. Þetta á að vera skýrt. Við eigum ekki að setja óskýr lög, hvorki um þetta né eitthvað annað sem endar svo hjá dómstólum og verður full vinna fyrir lögfræðinga í dómsölum. Það á ekki að þurfa að útkljá það þar, við á Alþingi eigum að setja skýr lagaákvæði. Það finnst mér vanta í þetta.

Það er rétt að við þurfum að hafa öryggissjónarmið í fyrsta sæti, við eigum ekki að gefa neinn afslátt af öryggisatriðum hvað varðar fyrstu viðbrögð hjá flugvél ef eitthvað skeður í lendingu.

Í öðru lagi þurfum við að hafa í huga hagkvæmni. Við Íslendingar eigum alltaf að hafa að leiðarljósi að gera hlutina á sem hagkvæmastan hátt og hvernig hægt er að gera þá sem ódýrasta. Það er ekki lengur til nóg af peningum, það verður ekki meira tekið að láni hjá þessari þjóð til að göslast með fram.

Síðast en ekki síst eru alþjóðlegar skuldbindingar.

Það hefur komið fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni og hv. formaður nefndarinnar Mörður Árnason sagði það við mig áðan að þetta væru þau atriði sem við ættum að hafa í huga. Ég vissi um það sjónarmið formannsins sem ég vil þakka fyrir. Þess vegna brá mér verulega þegar ég leit augum breytingartillögurnar vegna þess að þá held ég að við gerum valdmörkin óskýrari, að það verði aldrei annað en togstreita á milli þessara tveggja stofnana, sem á ekki að vera, og jafnvel tveggja ráðuneyta. Það á ekki að vera og við eigum að setja það fastar hérna niður.

Í nefndarálitinu er lögð áhersla á það sem ég las upp áðan, þar með talið samgöngur og flugvelli, og þá kemur einfaldlega nýr aðili, viðkomandi slökkviliðsstjóri. Ef ég man rétt eru 15 flugvellir í kerfinu okkar, og þá 15 slökkviliðsstjórar, til að tryggja að þetta sé alveg klárt. Það er rekstrarfélag flugvallarins sem á að sjá um að eiga tæki og tól til fyrstu viðbragða og að mannskapurinn sem er settur á þau tæki bregðist við eins og ég segi í fyrstu ef flugslys verður. Síðan er auðvitað alltaf viðkomandi slökkvilið ræst út og það kemur á staðinn til aðstoðar. Þetta er grundvallaratriði. Eins og ég sagði áðan er engin deila í mínum huga um það að auðvitað hefur slökkvilið viðkomandi kaupstaðar með eldvarnaeftirlit og brunamál að gera í öllu húsnæði sem til er á völlum, sama hvort það er flugturn eða eitthvað annað.

Það er rétt, það komu upp deilur í sumar sem við þurftum að útkljá, ég sem samgönguráðherra og hæstv. núverandi umhverfisráðherra, þar sem við gerðum samkomulag um ákveðin atriði vegna þess að það voru deilur milli Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og Flugstoða sem heita Isavia í dag, flugrekstrarfélagsins. Það lauk með því að við gerðum sátt og settum í gang ákveðna vinnu. Ég skrifaði þá flugmálastjóra bréf og bað hann að vinna ákveðna vinnu, kanna m.a. hvernig þetta er á Norðurlöndum og setja það allt upp. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það bréf hef ég ekki séð, það var ekki komið í ráðuneytið þegar ég fór þaðan 2. september sl. og ég hef viljandi ekki kallað eftir því núna vegna þess að ég held að það sé ekki orðið opinbert plagg. Ég veit ekki hvað þar hefur verið lagt til.

Ég ætla að ganga út frá því að Flugmálastjórn sem vinnur mjög faglega hafi farið vel í gegnum þann þátt. Það kemur aldrei neitt frá Flugmálastjórn annað en það sem er vel unnið samkvæmt öllum skilmálum og öllu því sem við höfum undirgengist hér sem við þurfum að inna af hendi, sama hvort það er Chicago-sáttmáli, lög um loftferðir eða annað. Ég treysti Flugmálastjórn 100% fyrir þeirri vinnu. En hvernig það stendur veit ég ekki nema að þetta hefur dregist. Það er sannarlega bagalegt ef það hefur gerst, en vafalaust hefur vinnan verið meiri og inn í þetta blönduðust svo sumarfrí og annað.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði gagnrýni ég ekki, heldur er hlynntur tillögu nefndarmanna um að draga til baka til 3. umr. breytingartillögur við 3. gr. og 16. gr. sem eru þessar tvær aðalgreinar. Nefndin ætlar að fara betur í þetta og kalla þá til sín aðila. Það er alveg rétt sem kemur fram í umsögn frá Isavia að þegar frumvarpið var flutt á síðasta þingi var skilað inn umsögn og þegar það síðan er endurflutt á þessu þingi er Isavia ekki beðin um álit. Eins og oft gerist er síðan ekkert víst að umsagnaraðilar taki eftir breytingartillögum sem verða í meðförum þingnefnda. Þeir hafa ekki nein tækifæri til að veita umsögn um breytingartillögurnar. Það er það sem er að gerast hérna núna. Að mínu mati, og styðst ég þar líka við rök frá aðilum sem ég hef rætt við, verður ákvæðið óskýrara verði það áfram, og of óskýrt. Þá ítreka ég það sem ég sagði áðan, virðulegi forseti, það er grundvallaratriði úr því að við erum með þessi lög opin að við segjum alveg klárt hvað fellur undir Brunamálastofnun og hvað undir annað. Það á ekki að vera hægt að lesa þar milli lína, að einn lögfræðingur túlki þetta svona og annar hinsegin eða að stofnanir og ráðuneyti túlki þetta sitt á hvað. Þá hefur lagasmíðin ekki tekist nógu vel.

Þetta vildi ég láta koma hérna fram. Í mínum huga er í 14. viðauka í Chicago-sáttmálanum og reglugerðum sem eru smíðaðar í framhaldi af því og lögunum um loftferðir kveðið alveg skýrt á um þetta. Í mínum huga er miklu betra, svo það komi nú fram sem mín skoðun, að þetta sé skýrt hjá flugvallarfélaginu sem gerir þetta og gerir þá sömu kröfur til allra slökkviliða flugvalla, þessara 14 eða 15 flugvalla sem eru í gangi, ætli séu ekki 14 á landinu og 15 með Keflavíkurflugvelli þannig að það er rétt að tala um 15 þó að Keflavíkurflugvöllur sé með stórt og mikið slökkvilið. Þessar samræmdu reglur eru þá settar af Isavia, styðjast við alþjóðasáttmála, hvernig þetta er gert annars staðar, sem aðila fyrstu viðbragða bæði gagnvart tækjum og öðru. Ég get tekið sem dæmi, virðulegi forseti, þegar ég las öll þau bréf og allt það sem gerðist í vor og sumar út af þeirri deilu sem spannst upp hér út af Reykjavíkurflugvelli. Mér þótti t.d. mjög merkilegt að lesa þegar Flugstoðir sem svo hétu þá keyptu sér nýjan bíl, mjög fullkominn, sem auðvitað krafðist ekki eins margra manna í vinnu og á gömlu bílunum þar sem einn keyrði, einn stjórnaði dæluútbúnaði og þriðji vatnsbyssunum. Þetta er bara þróun sem á sér stað, tæki verða fullkomnari og eru þróuð þannig að þau geti líka sparað mannskap.

Ég tek skýrt fram, virðulegi forseti, enn og aftur, að þetta á ekki að verða til þess að neinn afsláttur verði gefinn af öryggi flugfarþega. Það er ekki á dagskrá. Aðalatriðið er að setja þetta svona niður, setja þetta fast og þess vegna óttast ég að miðað við þessar breytingartillögur og þær umsagnir sem ég hef séð um þetta séum við að ganga á það. Þá vitna ég sérstaklega í nefndarálitið þar sem er talað um flugvellina. Þá er það stutt og laggott þannig, virðulegi forseti, að tveir aðilar geta varðandi breytingartillögurnar opnað fyrir það að slökkviliðsstjóri geti sett auknar kvaðir um viðbúnað rekstraraðila, flugvalla, sem og annarra mannvirkja. Tveir aðilar voru farnir að setja kröfur um viðbúnaðarþjónustu flugvalla og það er bara til að flækja málið. Þetta er grundvallaratriði.

Þess vegna fagna ég hiklaust því sem hv. þingmaður og formaður nefndarinnar hefur sagt í samtölum okkar hér á milli, þó að maður eigi auðvitað ekki að vitna beint í slíkt, að valdmörkin séu skýr, þetta sé sett klárt niður. Það er verkefni okkar og það á að vera verkefni okkar á Alþingi þegar við setjum lög að þau séu skýr, hafin yfir einhverjar mistúlkanir milli stofnana, milli ráðuneyta og milli lögfræðinga. Þá hefur okkur tekist illa til ef það er svo.

Virðulegi forseti. Ég vildi koma þessu hér á framfæri um leið og ég árétta skoðun mína og nota tækifærið til að koma henni á framfæri vegna þess að fjölmargir fulltrúar úr umhverfisnefnd eru að sjálfsögðu viðstaddir þessa umræðu. Ég tel að þarna eigum við að ná sáttum og hafa þetta í því formi sem það hefur verið, kveða fastar á um það og taka úr þau óskýru atriði sem fólust í því að í greinargerð var sagt að það fjallaði um flugvelli en í lagatextanum sjálfum var þess hvergi getið. Það kann að vera undirrótin að þeim deilum sem eru milli þessara stofnana.

Að öðru leyti ítreka ég þakkir til nefndarinnar fyrir að fara svo vel í gegnum þessi tvö stóru frumvörp. Ég hef fylgst með þeim áður og sé það þegar ég hef verið að kynna mér þetta núna að þarna hefur verið vel unnið og farið vel í gegnum þessa þætti. Þetta er mín eina athugasemd við þetta frumvarp og hana vildi ég láta koma hérna fram. Ég vænti þess og vona að hv. nefndarmenn umhverfisnefndar taki þessi mál til umfjöllunar, kynni sér þau auðvitað frá báðum hliðum og báðum aðilum og horfi yfir þannig að þetta verði sett skýrt niður. Við eigum ekki að taka þátt í togi milli aðila eða hvað við viljum kalla það. Valdmörkin eru skýr og við eigum að hafa þetta eins og viðgengst í flugheiminum. Flugheimurinn er þannig að hann er með dálítið sérstakar reglur og sérstök lög sem eru samræmd alþjóðlega og eftir því þurfum við Íslendingar að fara líka.