139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[18:25]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég hef fáu við greinargóða framsögu hv. framsögumanns, Ástu R. Jóhannesdóttur, að bæta. Ég fagna þessu frumvarpi og ég styð það heils hugar. Það er í góðum samhljómi við niðurstöður í skýrslu þingmannanefndarinnar sem Alþingi samþykkti samhljóða í haust. Það er mín skoðun að frumvarpið, verði það að lögum sem ég geri náttúrlega ráð fyrir, styrki verulega hlutverk þingsins og efli sjálfstæði þess gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég þykist vita að góð samstaða sé um málið og er að mínu mati brýnt að leiða það til lykta eins fljótt og unnt er með faglegum og öruggum vinnubrögðum.

Ég vil gera það að umtalsefni líka að það léttir auðvitað störfin í allsherjarnefnd og meðferð málsins á þingi hvað frumvarpið er vel unnið. Það er eiginlega að mínu mati fyrirmynd um það hvernig eigi að standa að lagasmíð. Hv. framsögumaður rakti forsögu málsins og það kemur fram í greinargerð að það er byggt á dönskum lögum um rannsóknarnefndir. Áður en frumvarpið var samið kom út vönduð skýrsla þriggja valinkunnra lögfræðinga, Bryndísar Hlöðversdóttur, sem stýrði vinnunni, Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns og Ragnhildar Helgadóttur prófessors og nefndin naut auk þess aðstoðar Ásmundar Helgasonar aðallögfræðings þingsins. Þetta var forvinnan og í framhaldi af þeirri skýrslu var frumvarpið unnið upp. Forvinnan er til fyrirmyndar og þetta er gott dæmi um vandaða lagasmíð. Þetta hygg ég að sé aðferð sem þingið ætti að taka upp í ríkara mæli. Hún á sér fyrirmyndir á Norðurlöndum þar sem eru gefnar út skýrslur, Norges offentlige utredninger heitir það í Noregi og það er svipað í Svíþjóð og víðar.

Ég vil ljúka orðum mínum með því að óska okkur til hamingju með þetta mikilsverða skref.