139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[18:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi, eins og aðrir ræðumenn, lýsa ánægju með að frumvarpið er komið fram. Hér er um almennan ramma að ræða utan um starf rannsóknarnefndar sem Alþingi skipar til að taka til meðferðar og rannsaka ákveðin atriði sem varða almenning og tengjast meðferð opinbers valds. Ég held að það sé mikilvægt að búa til þennan farveg. Ég held, eins og fram hefur komið, að þetta sé mikilvægur liður í því að efla aðhalds- og eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Þetta er einnig liður í ákveðnu ferli sem við erum í núna sem hlýtur að vera til þess fallið að styrkja stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það hefur lengi verið talað um að þörf væri á breytingum. Vegna þeirrar umræðu var hafist handa um verkefnið sem vísað er til í upphafi almennra athugasemda nefndarstarfsins sem hv. síðasti ræðumaður nefndi sérstaklega. Nefnd þeirrar Bryndísar Hlöðversdóttur, Andra Árnasonar og Ragnhildar Helgadóttur sem vert er að minnast að hrundið var af stað löngu fyrir hrun eins og menn segja nú á dögum. Nefndin hafði það markmið að kanna með hvaða hætti unnt væri að efla eftirlitshlutverk Alþingis og fór þannig fram að skrifuð var afar vönduð og greinargóð skýrsla um þau mál sem lögð var fram í september 2009 en vinnan hafði þá staðið yfir um allnokkurt skeið. Tillögurnar sem hér eru lagðar fram byggja á þeim grunni, m.a. þeirri gagnaöflun í samanburði við nágrannalönd og annað sem þá átti sér stað. Reynslunni sem við höfum gengið í gegnum síðustu missiri er bætt þar í. Bæði löggjöfin sem samþykkt var um rannsóknarnefnd Alþingis vegna bankahrunsins haustið 2008 og skýrslan sem sú ágæta nefnd skilaði af sér sem og skýrslan sem þingmannanefndin vann í kjölfar útgáfu þeirrar skýrslu, allt er þetta aðdragandi og undirbúningur að þessu frumvarpi.

Ég vildi geta þess almennt við 1. umr. málsins að mér finnst frumvarpið vel úr garði gert. Ákveðin álitamál sem upp komu við vinnslu málsins finnst mér hafa verið leidd til lykta með ágætum hætti. Það þýðir ekki að málið geti ekki tekið einhverjum breytingum í meðförum þingsins en hins vegar má segja að nú þegar er búið að vinna þá forvinnu þannig að álitamálunum hefur a.m.k. fækkað til muna. Það léttir, eins og hv. þm. Atli Gíslason nefndi áðan, verkið sem fyrir höndum er varðandi nefndarstarf í allsherjarnefnd þegar málið kemur þangað til meðferðar.

Ég vildi, án þess að fara út í langa umfjöllun um einstök atriði í sambandi við frumvarpið, nefna að persónulega er ég þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að hnykkt sé á því í 1. gr, eins og hér er gert, hvert gildissviðið á að vera, þ.e. að um mikilvæg mál sé að ræða sem varða almenning og tengjast meðferð opinbers valds. Með þessu er undirstrikað að þarna er um að ræða eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Það hefur komið til álita í umræðum að hafa gildissviðið með einhverjum öðrum hætti en í ljósi tilgangsins að þarna er um að ræða eftirlit með framkvæmdarvaldinu af hálfu þingsins. Ég tel að rétt sé að orða þetta þannig.

Varðandi eftirlit með öðrum aðilum, einstaklingum og lögaðilum í samfélaginu þá getum við sagt sem svo að ýmist eru það sérhæfðar eftirlitsstofnanir, eftir atvikum lögregla, ákæruvald og aðrir slíkir aðilar sem hafa eftirlitshlutverk í þeim efnum. Dómstólar hafa lögsögu þar og úrskurðarvald til að leiða til lykta t.d. ágreiningsmál sem varða mismunandi lögaðila. Með þessu er ekki sagt að ekki sé fyrir hendi sá möguleiki að einstaklingar, einkaaðilar, fyrirtæki, félagasamtök og aðrir komi með einhverjum hætti til skoðunar í tengslum við þessi mál. Það er ekki hægt að segja það. En það þarf að vera fyrir hendi tenging bæði við almannahagsmuni og meðferð opinbers valds til að þessi lagarammi eigi við. Ég held að það sé ágætt að það er hnykkt með skýrum hætti á þessu.

Í annan stað vildi ég nefna að það er mikilvægt að það sé undirstrikað í fleiri en einni grein frumvarpsins, bæði beint og óbeint, að forræði þessara mála og rannsókna er hjá Alþingi en ekki aðilum innan framkvæmdarvaldsins, þ.e. ráðherra, ráðuneyti eða einhverjum slíkum aðilum. Þarna komu við undirbúning málsins fram tillögur um mismunandi leiðir. Í löndunum í kringum okkur eru vissulega farnar mismunandi leiðir í þessu sambandi. Með sama hætti og ég nefndi áðan tel ég að í ljósi tilgangsins að setja ramma um þennan þátt eftirlits Alþingis með framkvæmdarvaldinu þá er mikilvægt að þetta sé undirstrikað rækilega. Þó það þyrfti ekki endilega að valda vandræðum í framkvæmd að vista einhvers konar stjórnsýslu eða stjórnsýsluverkefni tengd þessum málum hjá einstökum ráðuneytum þá væri bragurinn á því ekki góður að mínu mati. Ég held að sú lending sem hér birtist að Alþingi og yfirstjórn Alþingis, forseti Alþingis, gegni lykilhlutverki í sambandi við yfirstjórn þessara mála, ég held að það sé fínt að þessi leið verði valin. Öllum sem lesa þennan lagatexta má vera ljóst hvar valdið og hvar frumkvæðið liggur í þessum málum. Enginn þarf að hafa áhyggjur af því að framkvæmdarvaldið sé með einhverjum hætti með puttana í því sem þarna á að gerast.

Í þriðja lagi vildi ég nefna, án þess að fara djúpt í umræðuna, að það þarf að skoða ákvæði sem varða rannsóknarheimildir og réttarstöðu þeirra, bæði þeirra sem rannsókn kann að beinast að og þeirra sem láta í té gögn eða gefa skýrslur. Þetta eru svipaðar vangaveltur hjá mér og hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur áðan. Ég segi fyrir mitt leyti að mér sýnist frumvarpstextinn vera ágætur að þessu leyti. Ég hef ekki mótað mér neinar hugmyndir um breytingartillögur að svo stöddu en tel hins vegar að þetta sé atriði sem hv. allsherjarnefnd þarf að skoða nokkuð vel þegar málið kemur þar til meðferðar. Þarna er tvímælalaust um að ræða einhvern viðkvæmasta þátt rannsóknar af þessu tagi og full ástæða til að ganga þannig frá málinu af hálfu þingsins að ekki komi upp einhver vandamál þegar farið verði að beita þessum lögum, skipa rannsóknarnefndir í samræmi við ákvæði þeirra eða hrinda þessu að öðru leyti í framkvæmd.

Það eru ekki fleiri atriði sem ég ætla að drepa á í þessu stutta innleggi í upphafi umræðunnar. Ég vildi almennt segja að rannsóknirnar sem þingið hefur beitt sér fyrir í gegnum árin hafa ekki verið margar. Að einhverju leyti hefur það staðið í veginum fyrir þeim að það hefur verið óljóst eftir hvaða reglum ætti að fara þegar slíkar rannsóknir eru framkvæmdar. Ég held að það sem við höfum séð á undanförnum mánuðum og missirum bendi til þess að þingið og einstakir þingmenn hafi mikinn áhuga á því að fara í rannsóknir á mörgum þáttum, kannski ekki síst í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndarinnar og þingmannanefndarinnar. Menn telja að það séu ákveðnir þættir sem þurfi að rannsaka nánar og eru þó nokkrar tillögur af þessu tagi fyrir þinginu. Þær eru mismunandi, þær gera ráð fyrir mismunandi reglum varðandi framkvæmdina, hvað varðar forræði mála og rannsóknarandlagið og flest sem máli skiptir í þessu sambandi. Ég held að það sé ótvírætt ávinningur að því að hafa samræmdan lagaramma í kringum rannsóknir af þessu tagi þannig að þeir sem flytja tillögur eða frumvörp um rannsóknir eins og menn hafa gert á undanförnum mánuðum geti gengið að því vísu að hér eru ákveðnar leikreglur og ákveðið form sem menn geta sniðið tillögur sínar að í stað þess að það þurfi í rauninni að semja leikreglurnar í hvert skipti fyrir sig.

Nú vil ég ekki útiloka að upp kunni að koma einhvern tíma í framtíðinni einhverjar slíkar rannsóknir eða tillögur um rannsóknir sem rúmast ekki innan þessa ramma. Ég hugsa að það séu algerar undantekningar. Rannsóknarnefndin sem sett var á fót í kjölfar bankahrunsins var að mínu mati tvímælalaust undantekningartilfelli, þ.e. um var að ræða rannsókn sem kom í kjölfar óvenju dramatískra og vondra tíðinda fyrir þjóðina, stjórnkerfið og alla sem komu að málum. Viðfangsefnið var óvenju viðkvæmt og erfitt og það var þörf á að setja það í einhvern farveg. Það var gert með sértækri lausn í það skiptið og ef yfir okkur dynja slíkar hörmungar einhvern tíma í framtíðinni þá kann vel að vera að við þurfum að bregðast við með sérstökum hætti.

En varðandi langflestar rannsóknir sem þingið telur tilefni til að ráðast í þá held ég að sá rammi sem hér er lagt upp með ætti að vera fullnægjandi í þessum frumvarpstexta. Hér erum við komin með ákveðið form sem hægt er að fylgja eftir og þá geta menn kannski þegar tillögur koma fram um rannsóknir deilt um tilefnið og deilt um hvað á að rannsaka. Menn þurfa þá ekki endilega að setja á langar rekistefnur um það hvernig eigi að forma rannsóknina eða framkvæma hana þannig að sá vandi yrði leystur með því að ganga frá þessu frumvarpi eins og það liggur fyrir.