139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[19:43]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka þakkir mínar til hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, þakkir fyrir að þetta frumvarp skuli vera komið fram. Þetta var eitt af því sem við sem störfuðum í þingmannanefndinni töldum að væri mjög mikilvægt að sett yrði löggjöf um. Ég ætla að fá að fara aðeins í gegnum greinar frumvarpsins, ég er með nokkrar athugasemdir.

Ég spurði í andsvörum um hvernig standa ætti að skipan rannsóknarnefnda og ég er mjög sátt við þau svör sem þar komu fram. Í 1. gr. er talað um að með rannsóknarnefnd í lögum þessum sé átt við sérstaklega skipaða nefnd sem falið sé að rannsaka tiltekin málsatvik í mikilvægum málum sem varða almenning og tengjast meðferð opinbers máls. Þetta er eitt af því sem við töluðum töluvert um á lokasprettinum í vinnu þingmannanefndarinnar. Þá komu ansi margar þingsályktunartillögur inn til okkar til að bæta við tillögu þingmannanefndarinnar, um rannsóknir á hinum og þessum málum. Við ræddum því töluvert um að það gæti verið mjög íþyngjandi að vera í rannsókn hjá rannsóknarnefnd Alþingis, og ætti í raun að vera mjög íþyngjandi, og því þyrfti að fara mjög varlega með þetta vald. Það er því mjög mikilvægt að hafa skýrar skilgreiningar á því hvað séu mikilvæg mál sem varða almenning og tengist meðferð opinbers valds. Ef fram kemur þingsályktunartillaga um rannsóknarnefnd þurfum við að velta því upp hvort uppfylla þurfi bæði skilyrðin eða hvort nóg sé að uppfylla annað þeirra. Það er eitt af því sem ég tel að við þurfum að skoða í meðferð Alþingis.

Einnig þarf að skoða skipan nefndarmanna. Ég tel að það hafi verið til fyrirmyndar hvernig staðið var að skipan nefndarmanna í lögum um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna. Það var unnið í mikilli sátt innan þingsins og allir þingmenn voru sammála um þá einstaklinga sem tilnefndir voru í þá nefnd. Eins og greinin hljóðar nú er það forseti Alþingis sem velur formann og afmarkar umboð nefndarinnar, hvort tveggja í samráði við forsætisnefnd, að fengnum tillögum þeirrar nefndar sem fer með eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. — Það getur verið að ég hafi eitthvað misskilið þetta en það kemur alveg skýrt fram hvernig standa skuli að þessu. Kannski væri hægt að fá skýringar á því hvort hugsunin sé sú að forseti Alþingis tilnefni alla nefndarmennina, hvort sem þeir eru einn, tveir eða þrír. — Ég tel mjög mikilvægt að sem mest samstaða ríki í þinginu þegar verið er að tilnefna nefndarmenn í rannsóknarnefnd sem hefur þetta mikið vald og þetta mikið vægi.

Færð eru mjög góð rök, í greinargerðinni með frumvarpinu, fyrir ástæðu þess að Íslendingar og Danir hafa farið þá leið að hafa rannsóknarnefndarmennina fyrir utan þingið frekar en að nota ákvæði í stjórnarskrá um rannsóknarnefndir skipaðar þingmönnum. Nefndirnar verða þá sjálfstæðari og óháðar þinginu. En það er að sama skapi mikilvægt að sátt sé á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um það hverjir skipa nefndina. Ég geri ekki athugasemdir við að formaður nefndarinnar sé lögfræðingur en í Danmörku hafa komið fram athugasemdir varðandi það að formenn rannsóknarnefnda séu dómarar. Það veldur því að í of miklum mæli er litið á rannsóknarnefndir eins og dómstól og niðurstaða nefndarinnar verður þá eins og dómur yfir fólki. En það er mjög mikilvægt að hafa í huga að hlutverk rannsóknarnefndar er að draga fram upplýsingar sem geta síðan leitt til þess að einstaklingar eða lögaðilar séu látnir sæta ábyrgð og þá skuli eftir atvikum vísa slíku máli til ákæruvalds eða til þingsins eins og gerist í tilvikum sem varða ráðherraábyrgð, það kemur þá til kasta þingsins að ákveða hvort ástæða sé til að vísa máli til landsdóms.

Í andsvari mínu við forseta Alþingis kom ég líka inn á 6. gr. og 7. gr. Það er atriði sem ég tel mjög mikilvægt að skoða mjög vel, þ.e. réttarstöðu þeirra sem koma fyrir nefndina, hvort sem það eru þeir sem eru til rannsóknar eða vitni. Eitt af því sem var mikið rætt í sambandi við hið svokallaða Tamílamál í Danmörku varðaði þær upplýsingar sem komu fram fyrir rannsóknarréttinum, þ.e. hver væru réttindi þeirra sem komu fyrir nefndina eða réttinn. Þá voru þar ákvæði um að mega hafa með sér löglærðan aðstoðarmann og eins og 7. gr. frumvarpsins er hér er talað um að sá sem er kallaður í yfirheyrslu eigi rétt á aðstoðarmanni að eigin vali á öllum stigum rannsóknar og síðan er fjallað um kostnaðinn. Þar sem talað er um að fjárhagsstaða Alþingis sé ekki sérstaklega góð tel ég að sú spurning vakni hvort þeir sem eru kallaðir fyrir nefndina sem vitni verði sjálfir að bera kostnað við störf aðstoðarmanns en í undantekningartilvikum sé hægt að greiða kostnað við störf aðstoðarmanns.

Það þarf líka að skoða reglur um það hvort viðkomandi þurfi að mæta fyrir rannsóknarnefndina eða hvort honum sé frjálst að neita því. Í lögunum um rannsóknarnefnd Alþingis er skýrt að sérhverjum einstaklingi er skylt að koma fyrir nefndina til skýrslutöku krefjist nefndin þess, það kemur fram í 8. gr. laga nr. 142/2008. Í 6. gr. frumvarpsins er talað um að sérhverjum, jafnt einstaklingum og stofnunum, sé skylt að verða við kröfum rannsóknarnefndar um að láta í té gögn en rannsóknarnefnd Alþingis hafði hins vegar heimild til að óska beint eftir gögnum og upplýsingum, bæði frá innlendum og erlendum aðilum, og gat raunar krafið íslensk stjórnvöld um aðstoð við að afla gagna frá erlendum aðilum. Það er mjög gott að þar eru tilgreind ákveðin formsatriði sem ættu að vera inni, eins og t.d. að tilkynna þurfi þeim sem nefndin kallar fyrir um skýrslutökuna með sannanlegum hætti og upplýsa um stað og stund. Einnig er talað um að heimilt sé að nota bæði hljóð- og myndbandsupptöku og það er raunar skylda að gera það. Ég tel að það væri mjög æskileg að hafa í þessum lögum.

Einnig eru ákvæði um að hægt sé að óska eftir að héraðsdómari kalli mann fyrir dóm. Þá koma inn ákvæði laga um réttarstöðu grunaðs manns ef um sakamál er að ræða. Þannig að það er aðgreint, eins og ég mundi túlka þetta, hér erum við að tala um það sem kallast réttarstaða vitnis. Þetta eru allt saman atriði sem voru í hinu svokallaða Tamílamáli og í landsdómsmálinu alger lykilatriði, hvað mig varðaði algjör lykilatriði upp á það að vera viss um að mannréttindi þeirra sem voru til rannsóknar væru tryggð.

Ég tel að Alþingi þyrfti að íhuga það að þegar fólk hefur verið tekið til yfirheyrslu og hefur réttarstöðu vitnis, ekki réttarstöðu grunaðs manns, þá sé það algerlega á hreinu að ekki megi nota þær yfirheyrslur fyrir dómstólum heldur þurfi í framhaldinu að fara með málið í annað ferli til að tryggja að hægt sé að nota þau gögn fyrir dómstólum. Það er eitthvað sem ég sé ekki í þessum lögum en ég treysti því að allsherjarnefnd muni fara mjög vel yfir þetta.

Skoða þarf sérstaklega skilgreiningar á efnistökunni eins og ég fór í gegnum áðan og aðeins var farið í gegnum allar þær þingsályktunartillögur sem liggja fyrir þinginu um rannsóknarnefndir. Ég vil benda á að Alþingi hefur þegar samþykkt tvær rannsóknir sem voru í ályktun þingmannanefndarinnar, annars vegar rannsókn á sparisjóðnum og hins vegar rannsókn á hlut endurskoðenda í bankahruninu. Þó að við næðum ekki að klára þingsköpin á þessu þingi, ef í ljós kemur að ágreiningur er um það, tel ég mjög mikilvægt að við náum að klára þessa löggjöf um rannsóknarnefndir. Alþingi hefur þegar samþykkt að fara í tvær mjög viðamiklar rannsóknir sem þurfa að byggjast á þessari löggjöf.

Ég vil taka undir þau sjónarmið sem komu fram í ræðu hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjónarmið sem hann hefur farið yfir í þó nokkuð mörgum ræðum, og varða réttaröryggi og þá ákvörðun að fara í rannsókn. Það var mjög aukinn meiri hluti sem tók ákvörðun um að fara í rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna og það var hreinn og klár meiri hluti sem tók þá ákvörðun að fara í rannsókn á sparisjóðunum og endurskoðendum. Ég vil gjarnan heyra sjónarmið með og á móti því hvort að einhverju leyti ætti að gera kröfu um meiri samstöðu, aukinn meiri hluta, hvað varðar þá ákvörðun að fara í rannsókn. Norðmenn hafa verið með ákveðið tæki með því að hafa stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sína þannig skipaða að formaður er stjórnarandstæðingur og jafnvel, ég er þó ekki alveg viss um að ég fari rétt með, að í einhverjum tilvikum séu stjórnarandstæðingar í meiri hluta. Ítrekað hefur verið bent á að þau brot sem ætlunin er að rannsaka geti verið fyrnd þegar rannsóknar er krafist og kannski erfitt að fylgja því eftir hvernig samsetningin er þá innan þingsins. Það þarf að velta því fyrir sér hvernig nefnd sem fjallar um þingsályktunartillögur um rannsóknir og skipun rannsóknarnefnda er skipuð. Hafa þarf í huga að ekki sé í of miklum mæli verið að nota rannsóknarnefndir sem einhvers konar pólitísk vopn á Alþingi.

Við veltum því líka mjög mikið fyrir okkur í þingmannanefndinni, þegar við vorum að fjalla um þessi ákvæði um lagalega ábyrgð og pólitíska ábyrgð, að í núgildandi þingsköpum, í lögum um ráðherraábyrgð, er ekkert tæki til þess beint, fyrir utan það að koma fram með beina vantrauststillögu, að ná utan um pólitíska ábyrgð, sérstaklega þegar lagalega ábyrgðin er fyrnd en hin pólitíska ábyrgð situr eftir. Það er eitthvað sem ég tel að Alþingi þurfi að taka betur á, þ.e. (Forseti hringir.) hvernig við tökum á málefnum sem að okkar mati eru ámælisverð en við höfum kannski ekki bein lagaleg tæki til að ná utan um.