139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[20:27]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi er lagt til að Samkeppniseftirlitinu verði veittar valdheimildir sem eru meiri og matskenndari en áður hafa sést í íslenskum samkeppnislögum til að brjóta upp fyrirtæki án þess að þau hafi gerst brotleg við lög. Þetta eru sannarlega víðtækar íhlutunarheimildir sem Samkeppniseftirlitinu er veitt og því miður er það þannig að það er ekkert í lagatextanum sjálfum sem veitir neina leiðsögn um það hvernig heimildinni verður beitt. Hv. þingmaður nefndarinnar vísaði þó til þess í ræðu sinni, og þess er líka getið í nefndaráliti meiri hlutans, að heimildinni skuli aðeins beitt í undantekningartilvikum og við einhverjar tilteknar aðstæður. Það nægir að mínu mati ekki til að skýra heimildina, hún er eftir sem áður jafnmatskennd vegna þess að þessir mælikvarðar eru ekki færðir inn í lagatextann sjálfan sem stjórnvaldinu er ætlað að starfa eftir. Ég kem betur að því á eftir í efnislegri umræðu um málið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann og hv. formann viðskiptanefndar um það á hvaða sviðum atvinnulífsins hv. þingmaður, sem mælir fyrir þessari tillögu, telur að þessari heimild verði beitt. Hv. þingmaður og meiri hluti nefndarinnar hlýtur að hafa eitthvað í huga um það hvaða fyrirtæki íslensks atvinnulífs mega búast við því að Samkeppniseftirlitið láti til skarar skríða gegn þeim. Ég mundi því gjarnan vilja heyra hvað það er sem réttlætir þetta frumvarp að mati hv. þingmanns og gegn hvaða fyrirtækjum hún telur að heimildinni verði beitt. Það væri ágætt ef hv. þingmaður gæti þá nafngreint þau fyrirtæki.