139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[20:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég trúi því ekki að hv. formaður viðskiptanefndar, Lilja Mósesdóttir, setji lög án þess að vita af hverju og án þess að nokkurt tilefni sé til. (Gripið fram í.) Maður spyr sig: Hefur þetta ekkert verið kannað? Vita menn ekki neitt? Er bara verið að setja þessi lög til vonar og vara, bara sisvona?

Í frumvarpinu stendur nákvæmlega, með leyfi frú forseta:

„Með aðstæðum er m.a. átt við atriði sem tengjast eiginleikum viðkomandi markaðar, þar með talið skipulag eða uppbyggingu fyrirtækja sem á honum starfa. Með háttsemi er átt við hvers konar atferli, þar með talið athafnaleysi, sem á einhvern hátt raskar samkeppni á markaði þrátt fyrir að ekki sé brotið gegn bannákvæðum laganna.“

Það er sem sagt átt við hvers konar háttsemi, t.d. það að reka fyrirtæki vel. Það er hvergi talað um það, ég sé það ekki, að markmiðið með því að skipta fyrirtækinu upp sé að lækka verð. Það getur vel verið að einhverjum starfsmanni Samkeppniseftirlitsins þyki fyrirtækið einfaldlega vera orðið of stórt, honum bara finnst það og hann hefur þá skoðun að þetta sé ekki gott. Hann hefur þá skoðun prívat og persónulega og þá flokkast það undir „hvers konar atferli“ og getur orðið tilefni til að skipta fyrirtækinu upp.

Mér finnst þetta vera nokkuð hættulegt og þetta er sama umræðan og við höfum tekið aftur og aftur. Ég tel að menn hefðu átt að kanna þessa hluti fyrst, vita hvort einhvers staðar sé hætta á einokun eða að fyrirtæki séu of stór. Ég er reyndar á þeirri skoðun að á matvælamarkaði sé töluvert mikil samþjöppun, hann þolir ekki mikla samþjöppun þó að aðrir markaðir þoli það. En ekki er vísað í neitt slíkt í frumvarpinu og það þykir mér heldur miður.