139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[21:27]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt skal vera rétt. Hv. þingmaður sagði flestir ef ekki allir umsagnaraðilar. Ég nefndi þrjú dæmi um aðila sem telja að frumvarpið sé annaðhvort til mikilla bóta eða gera smávægilegar athugasemdir við efni þess.

Ég vildi vekja athygli á öðru sem kom fram í máli hv. þingmanns. Hann talaði ítrekað um að með frumvarpinu væri verið að færa Samkeppniseftirlitinu tæki til þess að brjóta upp fyrirtæki. Ég finn því engan stað í frumvarpinu að tilgreint sé að Samkeppniseftirlitið fái heimildir til þess. Þvert á móti er um að ræða almenna heimild til Samkeppniseftirlitsins að beita úrræðum sem það telur hæfa til þess að bæta stöðu neytenda á samkeppnismarkaði. Það var rætt um það í nefndinni og kom fram í máli fulltrúa ráðuneytisins að með frumvarpinu væri verið að veita (Forseti hringir.) eftirlitinu heimildir til þess að beita vægari úrræðum en uppskiptingu fyrirtækjanna.