139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[21:33]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Flest ákvæði þessa frumvarps fengu ítarlega umfjöllun í viðskiptanefnd, bæði á þessu þingi og einnig því síðasta. Mest hefur verið fjallað um b-lið 2. gr. þar sem lagt er til að Samkeppniseftirlitið geti gripið til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi „sem komi í veg fyrir, takmarki eða raski samkeppni“. Nefndin hefur nú breytt þessu orðalagi yfir í „skaðleg áhrif á samkeppni“.

Við meðferð málsins í nefndinni komu fram athugasemdir við að heimild Samkeppniseftirlits væri of víðtæk en einnig var bent á að erfitt væri að afmarka efni þess nákvæmar , m.a. vegna ólíkra aðstæðna á mörkuðum, eins og fram kom í orðum formanns nefndarinnar hér áður, og óvissu um háttsemi markaðsaðila. Það er að mati meiri hlutans réttlætanlegt að í samkeppnislögum sé að finna ákvæði af þessu tagi en því ber aðeins að beita í undantekningartilfellum og undanfari þess verður að vera ítarleg rannsókn af hálfu Samkeppniseftirlitsins og mun ég koma síðar að þeim þáttum.

Það er eitt af hlutverkum Samkeppniseftirlitsins að fylgjast með þróun á samkeppnis- og viðskiptaháttum á einstökum mörkuðum í íslensku viðskiptalífi og kanna stjórnunar- og eignatengsl á milli fyrirtækja. Skal þetta gert í því skyni að meta hvort í íslensku viðskiptalífi sé að finna einkenni hringamyndunar, óæskilegra tengsla eða valdasamþjöppunar sem takmarkað geta samkeppni. Einnig segir í samkeppnislögum að stofnunin skuli vegna þessa grípa til aðgerða til að stuðla að virkri samkeppni. Ákvæðið, þ.e. 8. gr. samkeppnislaga, veitir hins vegar enga sjálfstæða heimild til aðgerða og getur Samkeppniseftirlitið því aðeins gripið til aðgerða vegna skaðlegrar stjórnunar eða eignatengsla ef þau fela í sér brot á bannreglum samkeppnisreglna eða verða til við samruna.

Með þeirri breytingu sem lögð er til á 16. gr. samkeppnislaga munu möguleikar Samkeppniseftirlitsins til að vinna gegn hamlandi stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja hér á landi aukast. Eins er það mikilvægt í núverandi ástandi að Samkeppniseftirlitið hafi slíkar heimildir þar sem mörg fyrirtæki hafa nú verið yfirtekin af fjármálafyrirtækjum í kjölfar efnahagshrunsins. Til að ná fram þessari styrkingu á samkeppnislögum er nýjum staflið bætt við 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga og Samkeppniseftirlitinu heimilað að grípa til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem kemur í veg fyrir, takmarkar eða raskar samkeppni.

Hér er átt við atriði sem tengjast eiginleikum viðkomandi markaðar, þar með talið skipulag eða uppbyggingu fyrirtækja sem á honum starfa. Þá tekur hugtakið „háttsemi“ til hvers konar atferlis sem á einhvern hátt raskar samkeppni. Samkeppniseftirlitinu verður þá m.a. heimilt að skipta upp markaðsráðandi fyrirtækjum ef það getur sýnt fram á með fullnægjandi rökum að staða þeirra á markaðnum feli í sér alvarlega röskun á samkeppni. Hér eru hagsmunir neytenda ætíð í fyrirrúmi.

Til að svo megi verða verður Samkeppniseftirlitið í því samhengi að skilgreina viðkomandi markað og leiða í ljós með skýrum hætti þær samkeppnishömlur sem um er að tefla. Í slíkum breytingum á skipulagi í fyrirtæki felast ekki óeðlileg afskipti af eignarréttindum heldur er um að ræða nauðsynlega aðgerð til að vernda mikilvæga almannahagsmuni. Ekkert fyrirtæki getur átt réttmæta kröfu til þess að vera til frambúðar í yfirburðastöðu sem hindrar með alvarlegum hætti virka samkeppni.

Það er hins vegar ljóst, og það er skoðun meiri hluta viðskiptanefndar, að aðeins verði gripið til slíkra aðgerða í undantekningartilvikum og uppfylla verður ákvæði 3. málsliðar 2. mgr. um að ekki sé fyrir hendi jafnárangursríkt úrræði sem er minna íþyngjandi. Eins er vert að nefna að samkeppnisrekstur er í eðli sínu neytendaréttur. Ber Samkeppniseftirlitinu því að horfa til almannahagsmuna við ákvarðanatöku og því er ljóst að heimildinni verður ekki beitt án þess að farið hafi fram heildarmat á þeim hagsmunum sem um ræðir.

Þá ber að hafa í huga að viðkomandi fyrirtæki geta skotið ákvörðunum um breytingu á skipulagi til áfrýjunarnefndar samkeppnislaga og eftir atvikum dómstóla. Í slíkum málum gildir sú undantekningarregla til hagsbóta fyrir viðkomandi fyrirtæki að málskot til dómstóla frestar réttaráhrifum úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála um breytingar á skipulagi viðkomandi fyrirtækis. Þetta tryggir réttaröryggi viðkomandi fyrirtækja og möguleika til að láta reyna á lögmæti kröfu samkeppnisyfirvalda um breytingar á skipulagi þeirra.

Í umræðum hingað til hefur nokkuð verið fjallað um umsagnir og vil ég í því sambandi grípa niður í umsögn Neytendasamtakanna við þetta frumvarp, en þar segir, með leyfi frú forseta:

„Neytendasamtökin telja mjög til bóta að Samkeppniseftirlitinu séu veittar rýmri heimildir en stofnunin hefur í dag til þess að grípa inn í aðstæður á markaði sem telja má að séu óeðlilegar og geti haft neikvæð áhrif á hagsmuni neytenda.“

Þá segir einnig í fyrrnefndri umsögn, með leyfi frú forseta:

„Verður hins vegar að telja að þessi aukna heimild Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar þar sem aðstæður kunna að vera þannig að hagsmunir neytenda séu ekki ofarlega á baugi í rekstri fyrirtækja á markaði sé til þess að auka virka og raunverulega samkeppni sem aftur kemur neytendum til góða í vonandi bættri þjónustu og lægra vöruverði. Að þessu virtu styðja Neytendasamtökin þetta frumvarp og hvetja til samþykktar þess.“

Þá segir í umsögn Félags atvinnurekenda, en í því félagi er stór hluti þeirra minni fyrirtækja sem þetta mál snertir sérstaklega, með leyfi frú forseta:

„Félag atvinnurekenda telur að umrætt frumvarp sé til mikilla bóta. Telur félagið að með því sé stigið mikilvægt skref til að bæta íslenska samkeppnislöggjöf.“

Þá kom það fram í umsögn Félags atvinnurekenda, sem meiri hluti viðskiptanefndar tók undir, að mikilvægt væri að árétta að heimildarákvæðið beri eingöngu að nota ef það er almenningi í vil og ekki megi nota heimildarákvæðið ef það er almenningi til tjóns. Þannig er tjón almennings lagt til grundvallar með skýrum hætti. Það þýðir jafnframt að ekki verður horft fram hjá mögulegum ávinningi neytenda af stærðarhagkvæmni í rekstrinum, sem oft einkennir fyrirtæki í fákeppnisrekstri. — Þetta kom skýrt fram í andsvari þess sem hér stendur við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson áðan. Þannig er ljóst að Samkeppniseftirlitinu ber eingöngu að nýta heimildina ef það er fullkomlega ljóst að hagur neytenda sé sá að grípa beri inn í.

Í lok maí á þessu ári, þegar viðskiptanefnd hafði þetta frumvarp til umfjöllunar í hið fyrra sinn, kom minnisblað frá Samkeppniseftirlitinu þar það var rakið hvernig farið yrði með vinnulag ef mál af þessu tagi kæmu upp. Þannig gerði Samkeppniseftirlitið skriflega grein fyrir meginþáttum í rannsókn máls þar sem til athugunar væri að beita ákvæði nýs liðar 16. gr. Í fyrstu mun Samkeppniseftirlitið skilgreina markaði málsins, annars vegar skilgreina svokallaðan vöru- eða þjónustumarkað, þ.e. markað fyrir vörur eða þjónustu sem neytendur líta á sem staðgönguvörur eða staðgönguþjónustu vegna eiginleika, verðs eða áformaðrar notkunar, og hins vegar mun Samkeppniseftirlitið skilgreina landfræðilegan markað málsins.

Að lokinni þeirri skilgreiningarvinnu og samhliða verður aflað ítarlegra upplýsinga um aðstæður á viðkomandi mörkuðum ásamt því að nýta upplýsingar úr fyrri rannsóknum Samkeppniseftirlitsins. Það er fyrsta stig málsins. Telji Samkeppniseftirlitið að lokinni þessari rannsókn að íþyngjandi ákvörðun kunni að verða tekin í málinu verður tekin saman greinargerð sem nefnist andmælaskjal. Í því andmælaskjali skal helstu atvikum málsins lýst og greint frá því að tilteknar aðstæður eða háttsemi kunni að fara gegn ákvæðum samkeppnislaga eða ákvörðunum teknum á grundvelli þeirra eða kunni að hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Andmælaskjal þetta er ritað í því skyni að stuðla að því að málið sé að fullu upplýst áður en ákvörðun er tekin og í því skyni að auðvelda aðila að nýta sér andmælarétt sinn. Andmælaskjal þetta er sent málsaðilum og þeim gefinn hæfilegur frestur til að gera skriflegar athugasemdir við það og koma að frekari skýringum og gögnum. Þetta er sem sagt stig þrjú í umræddri rannsókn.

Að framkomnum öllum sjónarmiðum og gögnum, þá m.a. frá viðkomandi málsaðilum, tekur Samkeppniseftirlitið svo formlega ákvörðun í málinu. Sé það að því loknu niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að beita íhlutun um uppskiptingu fyrirtækis, t.d. verður að leiða í ljós með skýrum hætti þær samkeppnishömlur sem um er að tefla, verður að ganga úr skugga um að ekki sé fyrir hendi jafnárangursríkt úrræði sem er minna íþyngjandi. Þannig er rökstuðningur Samkeppniseftirlitsins mjög ítarlegur.

Fimmta stig rannsóknarinnar er svo að þegar ákvörðun Samkeppniseftirlitsins hefur verið tekin og Samkeppniseftirlitið er enn þeirrar skoðunar að það vilji grípa inn í geta viðkomandi fyrirtæki skotið viðkomandi ákvörðun til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og eftir atvikum dómstóla. Sé um að ræða uppskiptingu fyrirtækis gildir sú regla til hagsbóta fyrir viðkomandi fyrirtæki að málskot til dómstóla fresti réttaráhrifum úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála um breytingar á skipulagi fyrirtækisins. Þetta tryggir réttaröryggi viðkomandi fyrirtækis og möguleika þess til að láta reyna á lögmæti kröfu samkeppnisyfirvalda um breytingar á skipulagi þeirra. Þarna er ítarlega farið yfir af hálfu Samkeppniseftirlitsins að svona ákvarðanir verða ekki teknar að illa ígrunduðu máli enda er beiting heimildar af þessu tagi mikið vandaverk og krefst mikilla rannsókna.

Þau sjónarmið hafa einnig verið reifuð fyrir nefndinni að það sé líklega aldrei jafnmikilvægt og einmitt núna að huga vel að samkeppni. Það segir sá sem hér stendur og hefur margoft talað úr þessum ræðustól um mikilvægi þess að okkur takist að byggja upp öflugt atvinnulíf til að ná viðspyrnu í þeirri kreppu sem við stöndum nú frammi fyrir. En ég er talsmaður þess að byggja upp heilbrigt viðskiptaumhverfi og tel því mikilvægt að gætt sé sérstaklega að samkeppni í því máli.

Það er ljóst að alþjóðleg samstaða hefur orðið til að vernda og efla virka samkeppni og slíkt sé afar mikilvægt í efnahagskreppu. Um þetta er m.a. fjallað í skýrslu norrænna samkeppnisyfirvalda um samkeppni og efnahagskreppur sem birt var síðla árs árið 2009. Þar kom fram það mat að virk samkeppni og samkeppnisstefna sé ein af forsendum norræna velferðarkerfisins og af fjármálakreppum fyrri tíðar megi læra að aðgerðir sem miða að því að viðhalda og efla virka samkeppni stuðli að því að þjóðir vinni sig hraðar en ella upp úr efnahagslægð. Samkeppni milli fyrirtækja, þ.e. heilbrigð samkeppni milli fyrirtækja, sé þannig mikilvæg til þess að hraða efnahagsbata og mynda grundvöll fyrir atvinnusköpun og hagsæld.

Frú forseti. Ég hef hér rakið þau sjónarmið sem voru reifuð fyrir nefndinni, bæði frá umsagnaraðilum og það sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta. Mér finnst að lokum vert að leggja áherslu á þetta: Hér er meiri hluti viðskiptanefndar að nálgast málið út frá hagsmunum neytenda í landinu. Réttur neytenda er algjörlega lagður til grundvallar í allri þessari nálgun, Samkeppniseftirlitið verður að hafa hagsmuni neytenda í fyrirrúmi. Stundum getur það verið svo að það sé til hagsbóta fyrir neytendur að grípa ekki til aðgerða en stundum er það svo að það er til hagsbóta fyrir neytendur að grípa til aðgerða. Hér er Samkeppniseftirlitinu veitt sú heimild að gera svo.