139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[21:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Frá mínum sjónarhóli er afar mikilvægt að hafa í huga eitt atriði í þessu sambandi. Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að ég efast ekki um góðan vilja frumvarpshöfunda og meiri hlutans í hv. viðskiptanefnd til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt um góða og virka samkeppni og þess háttar með hagsmuni neytenda í huga. Ég ætla mönnum ekkert annað en að vilja það.

Hins vegar hef ég nokkrar áhyggjur af frumvarpinu, sérstaklega í ljósi þess að ég sé ekki betur en hér séu stjórnvöldum með afar opnum hætti veittar heimildir til að beita íþyngjandi ákvörðunum án þess að til grundvallar liggi nokkur lögbrot eða nokkur sú misnotkun sem venjulega er forsenda fyrir því að slíkum íþyngjandi ákvörðunum sé beitt. Þetta er það fyrsta. Það deilir enginn um það að ef aðili eða fyrirtæki misbeitir markaðsráðandi stöðu sinni á markaði þá beri að bregðast við því. En hér er gengið lengra. Það er rétt að hafa í huga.

Fyrir utan að hér er fjallað um tilvik þar sem ekki er um neina misnotkun að ræða heldur einhvers konar óljósar aðrar aðstæður þá hef ég áhyggjur af því hversu víðtæk, opin og óljós lagaheimildin er. Ég vek athygli á því að í öðrum lögum þar sem stjórnvöldum eru falin víðtæk afdrifarík úrræði eru lagareglur yfirleitt mjög skýrar. (Forseti hringir.) Ég spyr hv. þingmann: Af hverju ætti ekki að vera þörf á því í samkeppnisréttinum einum að setja stjórnvöldum (Forseti hringir.) skýran lagaramma, af hverju á þetta að vera óljóst bara þar?