139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[21:48]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spyr hv. fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Birgi Ármannsson: Erum við sammála um að samkeppni, virk samkeppni, eðlileg samkeppni, heilbrigð samkeppni sé af hinu góða? Ég er þeirrar skoðunar að svo sé. Hér leggjum við til að Samkeppniseftirlitið fái heimild til að grípa inn í ef aðstæður eða háttsemi kemur í veg fyrir, takmarkar eða hefur skaðleg áhrif á samkeppni. Ég ítreka: Erum við sammála um þá skoðun að heilbrigð samkeppni sé af hinu góða og það beri að veita eftirlitsaðilum í samfélagi okkar heimild til að grípa inn í ef samkeppnin fer inn á ranga braut? (Gripið fram í.)

Þess vegna segi ég, hv. þingmaður: Ég nálgast verkefnið með hagsmuni neytenda til grundvallar. Hér eru hagsmunir þeirra lagðir til grundvallar um hvort beita beri heimildinni. Ég ítreka: Það getur vel farið svo að mat Samkeppniseftirlitsins sé að ekki beri að beita heimildinni vegna þess að það sé í þágu neytenda að hafa stór fyrirtæki sem geta gert stærri magninnkaup og náð hagkvæmni í rekstri. Samkeppniseftirlitið þarf, eins og ég kom inn á í ræðu minni, að rökstyðja það fullkomlega — enda eru þetta stórar ákvarðanir sem ber að taka — að háttsemi sé skaðleg. Að öðrum kosti getur það ekki beitt þessari heimild.