139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[21:58]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að eiga skoðanaskipti við hv. þingmann sem talar í einhverjum frösum og slagorðum og reynir að gefa í skyn að við sjálfstæðismenn viljum ekki standa með neytendum. Hvers konar vitleysa er þetta og mælskubrögð sem hv. þingmaður reynir að beita hér? [Hlátur í þingsal.] Ég verð að segja að ég átti von á öðru og meiru frá hv. þingmanni en þessu.

Auðvitað viljum við sjálfstæðismenn taka stöðu með neytendum og við viljum leggja okkur fram um að hagsmunir neytenda séu varðir í hvívetna og ég tók það fram í ræðu minni. Við viljum hins vegar ekki að lagaumhverfi og starfsumhverfi fyrirtækja sé með þeim hætti að stjórnvöld geti brotið fyrirtæki upp án þess að þau hafi gerst sek um lögbrot. Við viljum ekki stuðla að mest íþyngjandi íhlutunarheimildum sem þekkjast í evrópskum samkeppnisrétti. Hv. þingmaður mælir með því og segir svo: Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki taka stöðu með neytendum. Það eru engin rök í málinu.

Þegar hv. þingmaður talar um fimm hlið og ítarlega rannsókn og að hlutirnir verði að vera svona og hinsegin vil ég spyrja hv. þingmann: Hvar fyrirfinnast þessi fimm hlið og öll sigtin og allir varnargarðarnir sem hann nefnir í máli sínu í samkeppnislögunum? Væri ekki skynsamlegra hjá hv. þingmanni að reyna að formúlera það í lagatextanum sjálfum ef hann vill að fyrirkomulagið sé með þessum hætti? Að þetta komi fram í lagatextanum sjálfum? (Forseti hringir.) Hv. þingmaður á að vita að stjórnvöldum ber að starfa samkvæmt lögum (Forseti hringir.) og eftir því sem í þeim stendur en ekki einhverju öðru.