139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

atvinnuleysistryggingar og málefni aldraðra.

339. mál
[22:09]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil koma aðeins inn í þessa umræðu um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Þetta er að mínu viti þarft frumvarp og ég er sammála hæstv. ráðherra að það hefði verið ágætt ef það hefði komið fram fyrr en ég treysti því að samstaða verði góð um að afgreiða málið frá félags- og tryggingamálanefnd.

Ég hef nokkrar vangaveltur um efnisgreinarnar, til að mynda b-lið 1. gr., hvort framlengja ætti það ákvæði lengur en í þá sex mánuði sem þar er gert ráð fyrir. Ég vænti þess að það verði skoðað í nefndinni. Á sama hátt velti ég fyrir mér 3. gr. þar sem talað er um að miða við 1. maí 2008, hvort eðlilegra væri að miða við að fara framar á það ár því eins og hv. þingmönnum er væntanlega kunnugt byrjuðu fjármálastofnanir og verktakafyrirtæki að segja upp fólki í hundraðavís snemma á árinu 2008. Það er því ekki ólíklegt að einhver hluti einstaklinganna sem voru í þeim hópum gæti misst verulegan rétt nú strax um áramótin. Við munum væntanlega skoða þetta í nefndinni og m.a. fá upplýsingar um hversu marga einstaklinga er þarna að ræða. Þetta er afar mikilvægt vegna þess að þarna getur verið um umtalsverða hagsmuni að ræða fyrir sveitarfélögin í landinu, Að sama skapi eru það hagsmunir fyrir ríkið en það væri þá meira í samræmi við það sem rætt hefur verið um við sveitarfélögin, að ríkið taki á þessum málum.

Varðandi ákvæði í II. kafla frumvarpsins, um Framkvæmdasjóð aldraðra, held ég að það sé út af fyrir sig ágætismál. Það vill þannig til um áramót var 700 milljónum af úthlutunarfé sjóðsins sem ætlað var til úthlutunar á þessu ári, ekki úthlutað. Þeir peningar eru því til í sjóðnum óhreyfðir og ekki fyrirsjáanleg nein sérstök þörf fyrir að úthluta þeim í önnur verkefni á þessu ári. Það er því kannski óskynsamlegt að láta þá sitja óhreyfða í sjóðnum. Þess vegna styð ég að þeir verði notaðir til þessa verkefnis næsta ár. Hins vegar er mikilvægt að það komi fram að ég sé ekki skynsemi í því að haldið verði áfram á þeirri braut nema þá að gera það sem hluta af einhverri heildarendurskoðun á því hvernig við ætlum t.d. að fjármagna endurbætur á því húsnæði sem við byggjum og rekum fyrir aldraða einstaklinga.

Ég geri ráð fyrir að í umfjöllun sinni muni hv. félags- og tryggingamálanefnd taka á þeim atriðum sem ég tæpti á hér og ég þykist nokkuð viss um að nefndin muni taka málið til fljótrar og markvissrar afgreiðslu svo hægt sé að afgreiða það fyrir áramót.