139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

atvinnuleysistryggingar og málefni aldraðra.

339. mál
[22:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það má kannski segja að það frumvarp sem við ræðum hér megi líta á sem viðbrögð við því alvarlega ástandi sem ríkir á vinnumarkaðnum með þeim mikla fjölda sem nú er atvinnulaus og hefur ekki von um að fá vinnu á næstunni. Það kemur fram í athugasemdum við frumvarpið að um 12.000 manns eru atvinnulausir á þessari stundu og við vitum að fram undan er miklu erfiðari tími. Atvinnuleysið er að nokkru leyti árstíðabundið, eins og við þekkjum, vinnumarkaðurinn glæðist á sumrin og fram á haustið, en síðan fer að sverfa að. Hjá byggingarfyrirtækjum og verktakafyrirtækjum verður staðan oft og tíðum mjög erfið einmitt um þetta leyti árs og fram á vorið. Þannig hefur það jafnvel verið á bestu tímum að fyrirtækin hafa ekki getað sinnt verkefnum sínum af þeim ástæðum að veður og tíðarfar gera það ómögulegt. Það á t.d. við um jarðvegsverktaka víða um landið sem um þessar mundir eru búnir að eða eru að segja upp starfsmönnum sínum í talsverðum mæli. Sama á við um byggingarstarfsemi og þannig mætti áfram telja.

Svipuðu máli gegnir í ýmsum öðrum atvinnugreinum. Við getum nefnt ferðaþjónustuna sem stendur frammi fyrir því að með minnkandi traffík þurfi að segja upp fólki og draga saman seglin. Þær tölur sem við sjáum hér, um skráð atvinnuleysi upp á rúmlega 12.000 manns, eru því miður ekki vísbending um það sem við getum átt von á að sjá síðar á þessu ári og í byrjun næsta árs. Það er því augljóst mál að við sjáum ekki í farvatninu neinar lausnir á því mikla vandamáli sem atvinnuleysið er.

Vitaskuld er það þannig að þó mikilvægt sé að bregðast við með félagslegum úrræðum eins og þeim sem hér er verið að leggja til er það ekki lausn á þeim vanda sem við er að glíma. Lausnin getur ekki falist í öðru en því að reyna að skapa aðstæður til atvinnusköpunar í landinu til að tryggja að það fólk sem vill vinna og þarf að vinna geti helst fundið störf við sitt hæfi þannig að það geti á þann hátt framfleytt sér og sínum. Þó atvinnuleysisbætur séu mikilvægar, mjög mikilvægt félagslegt úrræði, kemur ekkert í staðinn fyrir það að hafa eitthvað að iðja, það skiptir miklu máli.

Þetta dregur athygli okkar að þeim upplýsingum sem koma fram í athugasemdunum sem lúta að langtímaatvinnuleysi og eru tilefni þess að þetta frumvarp er flutt hér. Frumvarpið gengur í sem skemmstu máli út á það að bregðast við því ástandi sem kann að koma upp á næsta ári þegar ýmsir kunna að vera í þeirri stöðu að hafa verið atvinnulausir í þrjú ár eða lengur. Fyrir ekki löngu hefðum við talið það nánast óhugsandi að sú staða gæti komið upp í einhverjum mæli a.m.k., en þetta er hins vegar hinn blákaldi veruleiki sem við stöndum frammi fyrir og fram undan er því miður enginn bati sjáanlegur að þessu leyti.

Ég ætla að vekja aðeins athygli á þeim tölum sem hér koma fram. Það kemur fram í fyrsta lagi að ef við skoðum þann hóp sem hefur verið atvinnulaus lengur en í 12 mánuði — eins og mælingin fór fram í október síðastliðnum voru það um 4.615 einstaklingar. Það eru um 38% þeirra sem eru atvinnulausir, nærri 40%, nærri fjórir af hverjum 10, nærri tveir af hverjum fimm sem eru skráðir atvinnulausir sem eru í þeirri stöðu að hafa verið atvinnulausir lengur en í ár. Við erum ekki að tala eingöngu um fólk sem hefur verið atvinnulaust í 12 mánuði eða 13, við getum verið að tala um fólk sem hefur verið atvinnulaust tvö til þrjú ár. Það sýnir okkur alvöru þessa máls sem við verðum að takast á við og það er tilefni frumvarpsins sem við ræðum í kvöld.

Ef við skoðum þetta í aðeins öðru samhengi kemur það líka fram í þessum athugasemdum að 7.205 einstaklingar hafa verið skráðir atvinnulausir í hálft ár eða lengur og þá er meðtalinn sá hópur sem ég var að ræða um hér áðan, sá hópur sem hefur verið atvinnulaus í eitt ár eða lengur. 7.205 einstaklingar, það eru 54% þeirra sem eru skráðir atvinnulausir í dag. Þetta er mjög ískyggileg tala. Meira en helmingurinn, meira en annar hver einstaklingur sem er á atvinnuleysisskrá í dag, hefur verið atvinnulaus lengur en í sex mánuði. Setjum okkur aðeins í spor þess fólks sem er komið í þá stöðu að hafa ekki fengið atvinnu þrátt fyrir að virk atvinnuleit sé hjá Vinnumálastofnun, þrátt fyrir að ég fullyrði að flestir þessara einstaklinga mundu vitaskuld kjósa að hafa vinnu en eiga þess bara einfaldlega ekki kost. Þetta er sá mikli vítahringur sem við erum stödd í núna.

Þess vegna er það svo alvarlegt, sem við heyrðum í dag frá Hagstofu Íslands, að fjárfestingarnar, sem eru undirstaðan að atvinnusköpun í landinu, skuli enn vera að dragast saman. Það er ekki mjög mikill samdráttur þegar kemur að fjárfestingu hins opinbera en þegar kemur að fjárfestingu atvinnulífsins er um að ræða 10% samdrátt í fjárfestingu í hinu almenna atvinnulífi í landinu. Það atvinnulíf sem við ætlumst til að taki á móti því fólki sem þarf á atvinnu að halda — og það koma út á vinnumarkaðinn á hverju ári 2.000–3.000 nýir einstaklingar til að leita sér að vinnu, fólk sem er að ljúka námi, fólk sem er búið að leita sér þekkingar hér á landi og erlendis og þarf nú að fara að leita sér að vinnu og bætist þá að öllu óbreyttu, miðað við þetta fjárfestingarstig, einungis í hóp þeirra 12.000 einstaklinga sem voru skráðir atvinnulausir í október, og talan er örugglega orðin hærri núna eins og mál hafa verið að þróast á þessu hausti.

Þetta er stóra málið sem við ættum að vera að ræða um hér alla daga og er það sem ég tel að sé eitt það alvarlegasta í efnahagsstöðu okkar í dag, þessi algjöra kyrrstaða sem er ríkjandi; kyrrstaða sem stafar af því að það eru sífellt að koma neikvæð skilaboð frá hinu opinbera. Það er pólitísk óvissa sem gerir það að verkum að atvinnulífið þorir ekki að fjárfesta. Maður hittir hér vinnuveitendur, atvinnurekendur, sem segja við mann: Ja, ég mundi gjarnan vilja taka þátt í því að fjárfesta en við vitum ekki hvert skattumhverfið verður, við vitum ekki hvert reglugerðarumhverfið verður, við vitum ekki hvernig hugmyndir ríkisstjórnarinnar líta út um það rekstrarumhverfi sem okkur verður búið. Þetta er svona almennt. Fyrir utan þær skattbreytingar sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að beita sér fyrir og sett í lög sem hafa verið íþyngjandi fyrir atvinnulífið og gert það að verkum að orðið hefur til aukinn kostnaður í atvinnulífinu sem hefur þar með dregið úr möguleikum atvinnulífsins til að fjárfesta sem aftur er forsendan fyrir því að við getum búið til störf. Síðan höfum við þessar stóru útflutningsgreinar okkar eins og stóriðjuna; heilu grjóthrúgurnar eru lagðar í veg stóriðjunnar þegar hún vill fjárfesta.

Við vorum að ræða fyrr í dag möguleikann á því til að mynda að opna á leiðir fyrir gagnaver að skjóta hér rótum. Það er búið að tala um þessi mál árum saman, um mikilvægi hinnar svokölluðu grænu stóriðju í gagnaverum, sem menn hafa séð að gætu hugsanlega leyst af hólmi hugmyndir um að byggja hér upp álver. Nei, jafnvel þar, í þessari grænu, fínu stóriðju, sem allir kepptust um að dásama fyrir fáeinum árum, jafnvel þar er ríkjandi kyrrstaða og þar er ekki heldur hægt að spyrna við fótum. Sama máli gegnir í annarri stórri útflutningsgrein, sjávarútveginum, þar sem allir halda að sér höndum vegna þess að enginn veit á morgun hvort þeir hafi ráðrúm eða möguleika eða svigrúm til að standa undir auknum fjárfestingum og við lesum um það og sjáum það og heyrum hjá því fólki sem starfar í þessari grein að það er ekki nokkur einasti maður sem þorir að hreyfa sig til fjárfestinga þar. Það er helst að menn dragi upp málningarpensilinn til þess að mála yfir ryðblettina, en það má eiginlega segja að þetta sé búið spil.

Þetta er hin alvarlega staða þessa máls og er ástæðan fyrir því að frumvarp af þessu tagi er komið fram, vegna þess að við erum ekki að rjúfa þann vítahring sem við erum stödd í núna í atvinnulegu tilliti. Fyrir vikið birtast þær hrollvekjandi upplýsingar, sem ég veit að við hljótum öll að hafa miklar áhyggjur af, að meira en helmingur þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá hafi verið atvinnulausir í meira en hálft ár, að nærri 40% þeirra sem hafi verið atvinnulausir hafi verið atvinnulausir í meira en heilt ár og ekkert sérstakt er fram undan sem gefur okkur tilefni til að ætla að róttæk breyting verði þar á.

Það er ýmislegt annað í frumvarpinu sem er ástæða til að gera að umræðuefni. Í frumvarpinu kemur fram að það hafi verið þannig að ef starfshlutfall viðkomandi einstaklings hafi skerst um a.m.k. 20% en fari þó ekki niður fyrir 50% geti menn átt völ á atvinnuleysisbótum. Það kemur hins vegar fram í frumvarpinu að ætlunin er að hækka þessi viðmið úr 20% í 30%. Ástæðan er sú að ætlunin er að reyna að draga úr kostnaði sem hefur óhjákvæmilega fylgt þeirri aðferð að gefa fólki sem er í þessari stöðu kost á því að fá atvinnuleysisbætur.

Ég var að reyna að lesa mig aðeins í gegnum umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um þetta mál. Ég verð að viðurkenna að mér gengur ekki nægilega vel að átta mig á því nákvæmlega hvað við erum að tala um mikla hagsmuni. Hvað er hér í húfi, hvað er það sem verið er að reyna að ná með þessum breytingum á skerðingarhlutfallinu? Það er sem sagt þessi breyting sem verið er að leggja til að starfshlutfallið verði að skerðast um 30% hið minnsta í stað 20% áður svo að viðkomandi einstaklingur geti átt rétt á þessum hlutfallslegu greiðslum. Það kemur fram að þetta geti þýtt, muni þýða og eigi að þýða að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs muni lækka á næsta ári. Það er vísað í einhverjar tvær breytingar sem muni geta stuðlað að því að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðsins lækki um 470 millj. kr. frá því sem áður var reiknað með. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hér sé eingöngu verið að taka tillit til þessarar skerðingar, eða hvort það séu aðrir hlutir sem þarna ber að reikna inn í til að fá þessa tölu út, 470 milljónir.

Í þriðja lagi vil ég koma að 4. gr. frumvarpsins, sem í sjálfu sér er ekki mjög ítarlega skýrð, að öðru leyti en því að þar er gert ráð fyrir að ráðstafa skuli úr Framkvæmdasjóði aldraðra til reksturs hjúkrunarheimila á næsta ári allt að 700 millj. kr. Nú vitum við að þetta er ekki alveg óþekkt fyrirbrigði, það hefur áður verið gert að skerða það hlutfall sem hefur farið til fjárfestinga á vegum Framkvæmdasjóðs aldraðra. Menn hafa gert það í vandræðum sínum og það er það sem verið er að gera hér. Það kom fram í umræðunni áðan að svo háttaði til að á þessu ári yrðu þeir fjármunir sem ráðstafað hefði verið til fjárfestingar í sambandi við hjúkrunarheimili og dvalarheimili aldraðra — að ekki væri búið að ráðstafa öllu því fé og í fyrningum væru til um 700 millj. kr. þannig að þetta kæmi ekki endilega að sök varðandi þau fjárfestingaráform sem þegar hefðu verið ákveðin. Nú vitum við að ýmis þau áform sem kynnt voru fyrr á þessu ári urðu ekki að veruleika fyrr en mjög leið á þetta ár og svo mjög að undan var kvartað eins og ég veit að hæstv. ráðherra þekkir ekki síður en ég í þessu sambandi. Það er væntanlega skýringin á því að ekki tókst að ráðstafa öllum þeim fjármunum sem höfðu verið lagðir til hliðar á þessum grundvelli til þessara verkefna. Það breytir því þó ekki að þetta er staðan eins og upplýsingarnar liggja fyrir að 700 millj. kr. séu til staðar nú þegar sem verði ráðstafað til þessa á næsta ári, þ.e. til rekstrarins.

Þá vaknar líka spurningin: Hvernig sjá menn þá framtíðina? Það er að vísu hugsunin að þannig verði þetta gert á árinu 2011, en einhverja framtíðarsýn hafa menn haft í þessum efnum, einhver áform og einhverjir samningar hafa verið gerðir. Ég spyr hæstv. ráðherra: Mun þessi ákvörðun, verði hún samþykkt hér á Alþingi, hafa áhrif á þau áform sem kynnt hafa verið eða gefinn ádráttur um varðandi uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir aldraða á næstunni?

Þetta, virðulegi forseti, var það sem ég vildi fyrst og fremst segja núna. Út af fyrir sig væri hægt að hafa mun lengri ræðu um þessi mál almennt vegna þess að þau gefa fullt tilefni til þess, en það er engu að síður svo að í sjálfu sér er frumvarpið jákvætt í þeim skilningi að verið er að bregðast við vanda sem þegar er orðinn. Ég óttast að sá vandi sé ekki tímabundinn. Ég óttast að við séum að festast inni í miklum vítahring nema á verði algjör stefnubreyting. Við vitum að ef ekki yrði brugðist við með þessum hætti mundi kostnaðurinn sem hlytist af ella lenda hjá sveitarfélögunum og við vitum það líka að langtímaatvinnuleysi er stórhættulegt. Það eykur á félagsleg vandamál. Það býr til félagsleg vandamál. Það kallar á örorku o.s.frv. Þess vegna er ákaflega mikilvægt fyrir okkur að samhliða þessu verði áfram unnið með þeim hætti að auðvelda fólki aftur innkomu inn í atvinnulífið með námskeiðum, með menntun, með þekkingu o.s.frv. og starfsþjálfun. Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í þeim efnum.